142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[16:37]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir að taka þátt í umræðunni og bjóða honum þjónustu Pírata við það í allsherjarnefnd að hjálpa til við að lýðræðisvæða þetta ferli eftir bestu getu. Mér sýnist að hæstv. menntamálaráðherra hafi ekki mikla trú, eða nokkra, á því að hægt sé að lýðræðisvæða ferlið á nokkurn hátt. Eftir því sem ég best fæ skilið telur hæstv. menntamálaráðherra það í reynd vonlaust að lýðræðisvæða ferlið og segir það með þeim orðum að alveg sama hætta sé á pólitík með valnefnd.

Mér þótti líka athyglisvert að hlusta á hv. þm. Pétur H. Blöndal tala um að auðvitað verði RÚV alltaf pólitískt fyrirbæri, enda undirstrikar það ákveðinn hugsunarhátt sem er slíkur að Ríkisútvarp eigi einfaldlega að vera pólitískt, eða kannski getum við kallað það lýðræðislegt. Þá skulum við líka vinna saman í allsherjarnefnd að því að gera þetta eins lýðræðislegt og gagnsætt og mögulegt er og til þess eru margar leiðir. Við píratar munum glaðir halda í hendurnar á hv. sjálfstæðismönnum í átt að meira lýðræði. Það er minnsta málið og við höfum gaman af því ef eitthvað er.

Síðast en ekki síst um samsæriskenningar. Í fyrsta lagi er samsæri auðvitað lagatæknilegt orð. Mig langar að minna alla á að samsæri eru gerð mjög reglulega, Watergate-skandallinn var samsæri, en þegar þau er uppgötvuð og sönnuð eru þau venjulega ekki kölluð samsæri heldur hneyksli. Það er til dæmis ekki samsæriskenning að Davíð Oddsson sé ritstjóri Morgunblaðsins, það er staðreynd. Hann er umdeildasti og áhrifamesti stjórnmálamaður seinni tíma á Íslandi og hann er ritstjóri Morgunblaðsins. Þetta er hugsunarhátturinn. Þetta er pólitík.