142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[16:43]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að veita örstutt andsvar við ræðu hæstv. menntamálaráðherra. Ég minni á að góðir hlutir gerast hægt og ég mun ræða þau lög sem eru í gildi um Ríkisútvarpið út frá markmiðum sínum og markmiðum þá þess frumvarps sem fyrir liggur. Markmið þeirra laga sem í gildi eru í dag er að styrkja stofnunina gagnvart Alþingi, það er að breikka grunninn undir fagmennskuna sem á að ríkja á þessari stofnun sem er þá liður í því að byggja traust. Þau lög sem nú eru í gildi eru skref í rétta átt.

Markmið þess frumvarps sem fyrir liggur er gagnsæi, fullyrðir hæstv. menntamálaráðherra, en á hins vegar í raun að þrengja þann grunn sem valnefndin stendur á. Grunnurinn er mjókkaður. Það má benda á að traust á Alþingi er í sögulegu lágmarki og sporin hræða.

Mig langar til að vitna til eins reyndasta fjölmiðlamanns landsins, ritstjóra til fjölda ára í áraraðir, Styrmis Gunnarssonar, sem segir í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, með leyfi forseta:

„[É]g er búinn að fylgjast með þessu í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“

Það er reynslan sem er komin á það fyrirkomulag sem hverfa skal til baka til. Það er reynsla sem er komin á það. Engin reynsla er hins vegar komin á hin nýju lög sem eru í gildi í dag sem eru skref í rétta átt og má vissulega bæta og breikka. Það er engin reynsla komin á þau. Eigum við ekki að reyna þau? Það legg ég til, að halda áfram.