142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[16:45]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki verið að leggja til að lögin verði afnumin, það er ekki verið að leggja til að þeim verði frestað eða þeim kastað út í hafsauga. Það er einungis einn hluti þessara laga sem verið er að skoða sem snýr að vali á stjórnarmönnunum.

Ég hjó eftir því við 1. umr. að bent var á að stór hluti af þessari nálgun var einmitt að búa til breiðan grundvöll með valnefndinni eins og talað var um. Ég leyfði mér að hafa þá skoðun að það hefði í fyrsta lagi ekki verið sérstaklega breiður grundvöllur sem þarna myndaðist, þ.e. þrír valdir af Alþingi, meiri hlutinn í valnefndinni er áfram valinn af Alþingi og síðan þessir tveir fulltrúar, annars vegar frá Bandalagi íslenskra listamanna og frá samráðsvettvangi háskólanna. Þess vegna tel ég að þegar menn horfa til þingsins sé alveg hægt að rökstyðja þá skoðun með nokkrum þunga að það sé ekkert síður breiður hópur karla og kvenna sem hér eru inni með umboð frá þjóðinni til þess að velja slíka stjórn.

Ég bendi á núverandi stjórn. Hér er talað eins og maður hljóti að draga þá ályktun að núverandi stjórn sé algerlega skelfileg af því að hún er skipuð með þeim hætti sem lagt er til í frumvarpinu. Eini munurinn er sá að það bætast við tveir stjórnarmenn. Getur það verið að hv. þingmaður sé þeirrar skoðunar að sú stjórn sem setið hefur og stýrt Ríkisútvarpinu ohf. í eitt ár tvö ár sé algerlega ómöguleg? Ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég held að þar starfi fólk af heilindum. Það er skipað af Alþingi. Ég held að það hafi bara skilað ágætu verki. Það er eðlilegt að menn hafi mismunandi skoðanir og þarf ekki að vera grundvöllur neinna samsæriskenninga þó að Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, eða fleiri hafi síðan skoðanir á Ríkisútvarpinu, tilurð þess, hlutverki og hvernig það sinnir sínu hlutverki. Það er bara alveg eðlilegt. En er það e.t.v. skoðun hv. þingmanns að sú stjórn sem nú situr, skipuð af Alþingi, hafi verið alveg ómöguleg?