142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

stjórn fiskveiða.

3. mál
[17:08]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögu við frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Ég er einn flutningsmanna þessarar tillögu ásamt hv. þingmönnum Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, Kristjáni L. Möller og Guðbjarti Hannessyni.

Breytingartillagan hljóðar svo:

„Í stað orðanna „allt að 2.600 lestum af óslægðum botnfiski“ í b-lið 4. gr. komi: allt að 3.285 lestum af óslægðum botnfiski.“

Lagt er til að ráðstöfunarmagn til strandveiða verði í hlutfallslegu samræmi við fyrirsjáanlega aukningu heildarafla næsta fiskveiðiár en að óbreyttu stendur ráðstöfunarmagnið í stað í lestum talið þrátt fyrir að heildarafli aukist.

Virðulegur forseti. Í grunninn fjallar tillagan um það sem reynt var að koma í gegnum þingið á síðasta kjörtímabili en tókst ekki vegna andstöðu stjórnarandstöðunnar þá og við lok þingsins. Hún er þó í fullu samræmi við niðurstöðu í svokallaðri sáttanefnd um stjórn fiskveiða sem felur í sér að strandveiðar skuli hafa hlutfall af úthlutuðum aflaheimildum hverju sinni en magnið sé ekki ákveðið í kílóum og tonnum eins og gert er í frumvarpinu.

Miðað við frumvarpið sem hér liggur fyrir gerist það ekki, talan helst óbreytt á milli ára þrátt fyrir fyrirsjáanlega aukningu í þorski, ef ég man rétt upp á 19 þús. tonn eða nálægt því sem Hafrannsóknastofnun hefur gert tillögu um og ég reikna með að verði fylgt af hálfu ráðherra við úthlutun aflaheimilda næsta árs.

Ég tel að þetta sé rétt aðferð og skynsamleg aðferð. Meginniðurstaða okkar sem skipuðu starfshóp um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða á sínum tíma var að þannig skyldi aflaheimildum úthlutað, þ.e. innan aflamarkskerfisins og svo til annarra nota í hlutföllum. Báðir hlutar mundu aukast í réttum hlutföllum ef aflaheimildir ykjust og dragast saman beggja vegna ef aflaheimildir drægjust saman.

Það er ekki mikið meira um þessa tillögu að segja, virðulegur forseti. Hún er flutt í þeim tilgangi að hlutdeild strandveiða haldist í úthlutuðum botnfisksafla.