142. löggjafarþing — 13. fundur,  25. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[18:05]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við erum hér með fyrsta og eina málið frá hæstv. ráðherra mennta- og menningarmála á þessu sumarþingi, það er að breyta einu atriði úr þriggja mánaða gömlum lögum sem samþykkt voru nánast mótatkvæðalaust á síðasta þingi. Mér finnst óskiljanlegt hvers vegna þetta mál kemur fram nema ef það er sett fram í sérstökum pólitískum tilgangi til þess að fá einhver ítök í Ríkisútvarpinu. Það er vondur tilgangur. Ég er búinn að hlusta á umræðuna, fylgjast með henni og taka þátt í henni en ég hef ekki fengið neitt svar um rökstuðning hvers vegna þessu er breytt og af hverju er ekki farið eftir því sem samþykkt var hér fyrir þremur mánuðum. Þingflokkur Samfylkingarinnar leggst alfarið gegn þessari breytingu.