142. löggjafarþing — 13. fundur,  25. júní 2013.

stjórn fiskveiða o.fl.

4. mál
[18:21]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Atvinnuveganefnd tók þetta mál til meðhöndlunar á milli 2. og 3. umr. Uppi voru ákveðnar hugmyndir um að túlkunarvafi væri varðandi lengdarmál báta í krókaaflamarkskerfinu sem fjallað er um í frumvarpinu. Á fund nefndarinnar kom Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda og nefndinni barst síðan minnisblað frá Siglingastofnun Íslands sem fylgir með nefndarálitinu.

Talið var að vafi gæti verið um efni sem byði þeirri hættu heim að hægt yrði að auka veiðigetu krókaaflamarksbáta án þess að það leiddi til sviptingar veiðileyfis með krókaaflamarki. Þannig yrði eigendum slíkra báta áfram mögulegt að gera þá breiðari og styttri, m.a. með því að bæta á þá búnaði eins og svölum, kössum og síðustokkum, án þess að það hefði þær afleiðingar sem lagðar eru til í 2. málslið a-liðar 6. gr. frumvarpsins.

Skilningur nefndarinnar er alveg skýr í þessu. Viðmiðunin, 15 metrar, er mesta heimila lengd krókaaflamarksbáta og er ekki háð túlkunarvafa. Skilgreining á mestu lengd kemur fram í reglum um mælingu skipa með lengd allt að 24 metrum, nr. 527/1997. Þar segir að mesta lengd sé heildarlengd skipsins, þar með taldir allir fastir hlutar bolsins, svo sem skriðbretti, perustefni, skutgeymar og hlífðarlistar sem teljast hluti bolsins. Hins vegar skuli ekki mæla gúm- eða trélista til hlífðar, stýrisfjaðrir, utanborðsvélar og utanborðsdrif eða annan auðlosanlegan búnað svo sem handrið, jafnvægisstýri, hlífðargrindur við utanborðsdrif og þess háttar.

Nefndin áréttar að framlagning breytingartillögu við 2. umr. grundvallast á þeirri ætlan að láta lengingu krókaaflamarksbáta fyrir viðskeytingu svala, kassa, síðustokka og annars útbúnaðar sem ekki fellur undir skilgreiningu á mestu lengd leiða til missis krókaaflamarksveiðileyfis.

Fram kemur, virðulegi forseti, í bréfi frá Siglingastofnun sem nefndinni barst að hún telji þá viðmiðun við mestu lengd ekki eiga að vera háða túlkunarvafa, samanber grein 5.3 í reglugerðinni, og því sé engin þörf á því að koma með breytingartillögu um samanlagða heildarlengd eða alla lengd, en það eru hugtök sem hvergi eru notuð í lögum eða reglum um mælingar skipa í alþjóðasamningum.

Undir nefndarálitið skrifa Jón Gunnarsson, Björn Valur Gíslason, með fyrirvara, Haraldur Benediktsson, Björt Ólafsdóttir, Kristján L. Möller, Páll Jóhann Pálsson, Þorsteinn Sæmundsson og Þórunn Egilsdóttir.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.