142. löggjafarþing — 13. fundur,  25. júní 2013.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

8. mál
[18:46]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Af hverju er verið að pressa svo á ESB-ferlið? Ég velti fyrir mér í hvaða leik stjórnarminnihlutinn er núna.

Ég legg talsvert fram af spurningum í ræðu minni en þær eru mestmegnis vangaveltur og þær spurningar sem ég legg fram í lokin eru þær spurningar sem ég vil fá svör við.

Ég spyr sjálfan mig af hverju fyrrverandi utanríkisráðherra, hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, er svo í mun að klára þetta mál að það geti ekki beðið fram á haustþing. Ég viðurkenni að ég er enginn snillingur í málum sem tengjast Evrópusambandinu en þykist vita að margt gott er þar og annað sem hentar Íslandi og Íslendingum illa.

Ég hef örlítið litið á þetta mál og ætla að byrja á árinu 2009. Miðað við undanfarna daga þreytist fólk hér í salnum ekki á að tala um fortíðina. Mér finnst samt persónulega leiðinlegt að tala um fortíðina því að við breytum henni ekki, en ég ætla að gera undantekningu núna því að ég held að fortíðin gæti varðað framtíðina.

Fyrrverandi utanríkisráðherra lagði fram tillögu til þingsályktunar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu á 137. löggjafarþingi árið 2009. Í þingsályktunartillögunni stendur, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning.“

Þetta er allt fínt, en það var það sem ríkisstjórn þess tíma var kosin út á. Ísland sótti um aðild og var vel tekið ytra. Ég hef aldrei fengið að sjá neinn samning á þessum fjórum árum. Þá spyr ég: Er samningur á leiðinni? Ég held ekki, alla vega ekki úr þessu. En hvað er þetta þá? Gríðarlega tímafrekt samningaferli eða mjög flóknar aðildarviðræður? Hvernig get ég ekki verið búinn að sjá neinn samning sem Íslendingur ef búið er að innleiða hluta af reglunum en samt ekki búið að opna nokkra kafla, svo sem um byggðamál, sjávarútveg og landbúnað? Líklega eru þá engir samningar á leiðinni. En ef verið er að vinna þetta mál svona, innleiða allt nema kannski síðustu hluta af reglum sambandsins og kjósa um örlítinn hluta, því að búið er að innleiða hitt, er þá framvinda verkefnisins ekki eins og lagt var af stað með í upphafi, miðað við þingsályktunartillöguna?

Ég er ekki að segja að reglur Evrópusambandsins séu slæmar, þvert á móti, mig langar bara að fá skýrari sýn á hvað við erum að fara út í. Ef þetta eru hvorki samningaviðræður né aðildarviðræður og hvað þá að verið sé að kíkja í pakkann — því að miðað við framgöngu málsins er pakkinn reglur Evrópusambandsins og þær eru öllum aðgengilegar — þá spyr ég: Hvað er þetta þá? Þetta virðist vera aðlögunarferli, mjög líkt aðildarferli en mjög ólík orð.

Baldur Þórhallsson, varaþingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður á síðasta kjörtímabili, er prófessor við stjórnmáladeild HÍ og gaf út bókina: Iceland and European Integration: On the Edge. Í stærðfræði þýðir „integration“ heildun eða tegrun en í þessu samhengi þýðir „integration“ samþætting eða aðlögun. Annaðhvort er Evrópusambandið að samþætta sig við Ísland eða Íslendingar að aðlagast Evrópu. Miðað við samheitaorðabókina á Snöru þýðir það það sama; samþætting eða aðlögun.

Ég fór á vef utanríkisráðuneytisins og fann margar fréttir í tíð fyrrverandi utanríkisráðherra, hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, og til að vera alveg viss las ég greinarnar einnig á ensku. Þar fer ekki á milli mála að verið er að fjalla um aðlögun Íslands að Evrópusambandinu.

Til að gefa dæmi vitna ég beint í orð þáverandi utanríkisráðherra í einni frétt, með leyfi forseta:

„I particularly appreciate …“

(Forseti (EKG): Ég vil vekja athygli hv. þingmanns á því að íslenska er þingmálið og hv. þingmaður hefur ekki heimild til þess að vitna með beinum hætti í enskan texta, getur hins vegar reynt að snara þessu með óbeinum hætti í máli sínu.)

Afsakið, herra forseti. Ég er líka með þetta á íslensku, en þetta skiptir máli því að ég held að enskan sé þýdd vitlaust yfir á íslensku, alla vega kemur það fram þarna að þar er „integration“ aðlögun, já, það er eins og verið sé að fara ranglega með orðið af ensku. Fyrir þá sem eru ekki sannfærðir er mjög gott að líta í orðabókina á Google og leita að orðinu aðlögun.

Ég er ekki að tala um að vera sammála eða ósammála, hv. þingmaður, ég er einungis að reyna að upplýsa í umræðunni, sérstaklega þar sem ég fann fyrir ólíkum skoðunum á þessu í kosningabaráttunni. Mér finnst rétt að þetta komi fram gagnvart kjósendum og þjóðinni.

Ég spyr: Telur hv. þm. Össur Skarphéðinsson miðað við framgöngu málsins að gerð hafi verið mistök í þýðingu og skilaboðum orðsins „integration“ yfir á íslensku eða hafa kjósendum vísvitandi verið gefin röng skilaboð? Ég tek fram að ég er ekki að kenna neinum um, hvorki þáverandi stjórn, fjölmiðlum, þýðendum né neinum öðrum.