142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Í gær birtust fréttir af tillögu nýrrar stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna um skilmála og úthlutunarreglur nú á hausti til að mæta hagræðingarkröfu ríkisstjórnarinnar sem þessa dagana stefnir að því að draga verulega saman tekjur ríkissjóðs. Lánasjóður íslenskra námsmanna þarf væntanlega að mæta 1,5% niðurskurði á næsta fjárlagaári ef áætlanir ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga.

Nú hefur nýskipaður stjórnarformaður LÍN staðfest að gerð verði krafa um að námsárangur verði 75% í stað 60% og að stjórn LÍN, sem er okkur til upprifjunar öll skipuð sjálfstæðismönnum, hafi ákveðið breytingar á úthlutunarreglum á þeim grunni. Niðurskurður af þessu tagi kemur helst niður á þeim sem ekki eru í fullu námi, t.d. barnafólki og námsmönnum sem vinna meðfram skóla. Ef til stendur að ákveða breytingar á úthlutunarreglum fyrir skólaárið 2013–2014 verður það að teljast afar skammur fyrirvari, nú þegar innan við tveir mánuðir eru þar til skólaárið hefst. Má segja að þá sé komið illilega aftan að námsmönnum. Í því samhengi er rétt að nefna að umboðsmaður Alþingis hefur þegar beint þeim tilmælum til mennta- og menningarmálaráðherra og LÍN að tryggja námsmönnum fullnægjandi ráðrúm til að bregðast við breytingum á úthlutunarreglum.

Í frumvarpi Katrínar Jakobsdóttur, fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra, um LÍN er brugðist við þessum athugasemdum umboðsmanns þar sem segir að úthlutunarreglur skuli lagðar fram til kynningar eigi síðar en 1. febrúar ár hvert og staðfestar af ráðherra. Í athugasemdum segir að breytingar á úthlutunarreglum þurfi að kynna fyrir fram með skýrum og glöggum hætti og nægilegum fyrirvara þannig að þeir aðilar sem málið snertir hafi ráðrúm til að gera viðeigandi ráðstafanir og bregðast við breyttri framkvæmd.

Ástæða er til, að mínu mati, að hafa verulegar áhyggjur af þeim áformum sem virðast liggja í loftinu varðandi LÍN af hálfu ráðherrans. Vill ekki mennta- og menningarmálaráðherra viðhafa vandaða stjórnsýslu? Hvers eiga námsmenn að vænta, frekari niðurskurðartillagna (Forseti hringir.) sem koma niður á námsframvindu?