142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Með þeim blaðamannafundi sem forsvarsmenn hægri stjórnarinnar héldu um ríkisfjármál fyrir hálfum mánuði gáfu þeir almenningi skilaboð um að ástandið í ríkisfjármálum væri það alvarlegt að þrengja þyrfti að almannaþjónustunni. Það voru þau skilaboð sem almenningur fékk og skapaði ákveðna óvissu hjá fólki.

Síðan koma aðgerðir hægri stjórnarinnar sem eru á þá leið að gefa útlendingum afslátt af neysluskatti og útgerðarmönnum afslátt af veiðigjaldi. Og þar með er skapað enn meira gat í ríkisfjármálum og almenningur óttast að nú þurfi að skera enn frekar niður í almannaþjónustunni vegna þess að áhersla hægri stjórnarinnar sé á útlendinga og útgerðarmenn en ekki heimilin og fólkið í landinu.

Ég hef áhyggjur af því, virðulegi forseti, að nú séu menn bara komnir í gamla gírinn (VigH: Já?) og agaleysi sé að grípa um sig í ríkisfjármálum. Ég leyfi mér að vitna í Ríkisendurskoðun sem segir í skýrslu sinni um framkvæmd fjárlaga árið 2007:

„Á undanförnum tveimur áratugum hefur Ríkisendurskoðun ítrekað bent á ýmsa misbresti á framkvæmd fjárlaga, virðingarleysi fyrir bindandi fyrirmælum þeirra og almennt agaleysi í rekstri fjölmargra stofnana.“

Ríkisendurskoðun bendir síðan á í skýrslu sinni um framkvæmd fjárlaga árið 2011 að svo virðist að agi í ríkisfjármálum hafi verið haldinn og horfi til betri vegar þar sem að á árunum 2003–2007 hafi fjárlögin farið fram úr um 6% en á árunum (Forseti hringir.) eftir hrun aðeins um innan við 2%.