142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í ljósi frétta sem við fáum núna af því hvernig Drómi fer fram gegn lántakendum sínum langar mig að eiga hér stuttlega orðastað við formann efnahags- og viðskiptanefndar. Það sem er að gerast núna er að Drómi, eins og fram kom áðan, er að fara í lántakendur sína með afturvirkar kröfur um auknar greiðslur frá þeim.

Þann 8. mars sl. hafnaði fjármálaráðuneytið, sem ég sat þá í, bótakröfu Dróma og sá engan grundvöll til að verða við henni á þeim tíma. Þannig svaraði fjármálaráðuneytið 8. mars sl. Í staðinn fyrir að fara eðlilega leið og gera kröfur á ríkið í gegnum dómstóla kemur þessi aðili núna fram við lántakendur með svo ósvífnum hætti að ég tel að Alþingi verði að grípa þar inn í.

Þess vegna vil ég spyrja hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar hvort menn hafi einhverjar hugmyndir uppi á borðum um það hvernig hægt sé að grípa til varna fyrir þá lántakendur sem þessi aðili fer nú svona harkalega í, og hvernig við á þinginu getum staðið að því að verja þessa aðila.

Fráfarandi ríkisstjórn lagði mikið á sig til að verja lántakendur í landinu fyrir kröfuhöfum sem gengu hart fram. Menn hafa gengið ólíkt fram og þessi aðili með sérlega ósvífnum hætti. Mér þykir ansi hart að heyra frá formanni fjárlaganefndar og býsna alvarlegt ef hv. þm. Vigdís Hauksdóttir ætlar nú þegar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að lúta í gras, gefast upp og taka ábyrgðina á ríkið. (Gripið fram í.) Mér heyrðist hv. þingmaður vera að gera það hér áðan. Það er að mínu mati mjög alvarlegt mál ef formaður fjárlaganefndar gengur þannig fram í ræðustól þingsins (Forseti hringir.) á meðan ríkið stendur í slag við þennan aðila. Við eigum ekki að gefa neitt eftir (Forseti hringir.) og ég hvet hv. formann nefndarinnar að taka þetta mál upp.