142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Í gær fór fram umræða um framkvæmd fjárlaga. Þar hafði ég eftir hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að hann hefði greitt 33 milljarða vegna Íbúðalánasjóðs án heimilda. Það hafði ég eftir honum úr ræðu á mánudaginn þar sem hann sagði, með leyfi herra forseta:

„Þegar þarf að afskrifa á einu bretti 33 milljarða sem settir eru inn í Íbúðalánasjóð, auðvitað kemur það svona út í ríkisreikningnum. Það voru engar fjárheimildir fyrir því að Íbúðalánasjóður væri að fara á hausinn en það varð að bjarga honum. Og svo framvegis.“

Þetta sagði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon en þetta er rangt því það er fjárheimild og var fjárheimild fyrir að greiða út Íbúðalánasjóð og bæði ég og hv. þingmaður höfðum gleymt því.

En málið var ekki þetta. Málið var að á undanförnum þremur árum sem vitað er um, árin 2009, 2010 og 2011, fór ríkissjóður 101 milljarð umfram fjárheimildir, þ.e. ríkisreikningur var 101 milljarði hærri en fjárlög og fjáraukalög. Það var þetta sem ég kom inn á og ég vitnaði til 41. gr. stjórnarskrárinnar sem segir, með leyfi herra forseta:

„Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“

Samt voru greiddir út 10 milljarðar 2009, 42,2 milljarðar 2010 og 48,7 milljarðar árið 2011 umfram fjárlög og fjáraukalög samkvæmt ríkisreikningi. Við munum sjá hvernig þetta kemur út fyrir 2012. Það liggur ekki fyrir.

Hvað þýðir það að vera kominn með jafnan halla ríkissjóðs þegar menn fara svo bara ekkert eftir því? Hvað þýðir það? Í mínum huga þýðir það ekki neitt. Menn verða að sýna miklu meiri aga í framkvæmd fjárlaga og fara að fjárlögum og fjáraukalögum. Ef þeir þurfa heimild eiga þeir að setja ný fjáraukalög þá þegar.