142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra Katrín Júlíusdóttir kemur hér og ræðir Dróma. Við sátum hér saman á síðasta kjörtímabili. Þá fór hér upp næstum því vikulega hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson og spurði æðimarga ráðherra um Dróma, framferði Dróma og hvað þáverandi ríkisstjórn hygðist gera til að koma í veg fyrir að fyrirtækið Drómi, þ.e. slitastjórnin sem gætti hagsmuna Frjálsa fjárfestingarbankans og Spron, gengi fram eins og hún gerði allt frá því hún var sett á laggirnar, allt síðasta kjörtímabil.

Hæstv. þáverandi forsætisráðherra lofaði í nóvember að koma með svör í desember. Sú ríkisstjórn fór frá í apríl, þá höfðu engin svör borist. Svo kemur hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra hér og skammast út í Dróma, sem er hárrétt að gera. Ráðherra sem var í forsvari í síðustu ríkisstjórn sem gerði akkúrat ekki neitt. (Gripið fram í: Það er rangt.) Ekki neitt [Frammíköll í sal.] í málefnum Dróma, svaraði ekki spurningum sem fyrir hana voru lagðar. Kemur svo hér með helgislepjuna uppmálaða (Gripið fram í.) og kallar eftir því að formaður efnahags- og viðskiptanefndar, nýr þingmaður, svari því hvernig hann og ríkisstjórnin hyggist bregðast við.

Forseti vor. Þetta er með ólíkindum.