142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Erlendir gjaldmiðlar ætla lengi að verða tilefni þrætu í þessum sal og annars staðar í þjóðfélaginu. Nú berast fréttir af því að Drómi ætli að krefja nokkra skuldara um skuld sem Drómi telur sig eiga. Hér hafa nokkrir tekið til máls um þetta atriði. Það er rétt að rifja upp forsöguna. Þessi krafa Dróma kemur til vegna lagasetningar á árinu 2010 (Gripið fram í.) sem kvað á um endurútreikning allra lána sem bundin voru erlendum gjaldmiðlum, ekki bara hin svokölluðu gengistryggðu lán, heldur öll lán sem bundin voru erlendum gjaldmiðlum. Síðar hefur svo verið skýrt af Hæstarétti að erlend lán voru ekki og eru ekki sem slík ólögmæt. Þau eru ekki ólögmæt og verða það ekki afturvirkt.

Þar liggur vandi Dróma. Ég tel ekkert óeðlilegt í sjálfu sér að Drómi sem kröfuhafi, eigandi mögulega útistandandi skuld einhvers staðar, leiti réttar síns. Við skulum hafa í huga að þótt hér hafi orðið hrun þá hrundi ekki réttarkerfið eða réttvísin. Höldum henni til haga. Hitt er annað mál hvaða leið Drómi eigi að fara eða ekki, á hvern hann sækir til að byrja með. Hann þarf að sanna tjón sitt og sýna það með einhverjum hætti áður en hann sækir það mögulega til þess sem ber ábyrgð á tjóninu.

Virðulegi forseti. Undir liðnum um störf þingsins tel ég af þessu tilefni rétt að ítreka að þegar menn ráðast í sértækar aðgerðir til þess að leiðrétta stöðu einstakra skuldara eða almennings í heild þá hafi menn jafnræði í huga, hafi grundvallarreglur réttarríkisins í heiðri svo að svona mál komi ekki upp og vindi ekki upp á sig ár eftir ár.