142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Það er hárrétt sem kom fram hjá hv. þm. Pétri Blöndal áðan um fjárlagagerð og vandaða lagasetningu og að fylgja beri fjárlögum. Það er algjörlega hárrétt. Það hefði betur verið þannig meðan menn höfðu hér úr nógu að spila eða töldu sig hafa úr nógum fjármunum að spila, að þeir hefðu haldið fjárlög, en það gerðu þeir ekki. Síðustu þrjú árin fyrir hrun fóru menn 75 milljarða fram úr fjárlögum, ekki vegna þess að neyðin knúði þá til þess, ekki vegna utanaðkomandi aðgerða, ekki vegna þess að það varð hrun. Nei, menn bara gerðu það. 75 milljarða fram úr fjárlögum. Ég veit að hv. þingmaður þekkir þetta mjög vel.

Þannig á að setja lög, setja vönduð lög sem standast fjárlög. Það höfum við nálgast á undanförnum árum og erum nú að nálgast það sem gerist í öðrum löndum, þ.e. varðandi frávik sem alltaf verða í fjárlögum á undirliggjandi rekstri ríkisins.

Það sem hv. þingmaður er að bera saman, fjárlög annars vegar og ríkisreikning hins vegar, þá er hann m.a. að taka inn í þessi einskiptisföll — vonandi — eins og Íbúðalánasjóð, Seðlabankann, Sparisjóð Keflavíkur og fleiri sem lenda inni í vegna hrunsins, eru bein afleiðing hrunsins, en verða vonandi ekki árlegur viðburður, þ.e. verður ekki hluti af rekstri ríkisins. Það er ekki réttlætanlegur samanburður heldur hvernig okkur tekst að reka ríkið miðað við þær tekjur sem við höfum.

Það sem ég benti á áðan var að þau frumvörp sem hafa komið inn í þingið á þessu sumarþingi frá ríkisstjórninni auka rekstrarhallann. Það er ekki gripið til aðgerða til að dekka þann kostnað sem frumvörpin fela í sér, þ.e. með minni tekjum og auknum útgjöldum upp á nærri 35 milljarða á fyrstu dögum ríkisstjórnarinnar, 1 milljarð á dag. Við hv. þm. Pétur Blöndal eigum sameiginlegt áhugamál, þ.e. ríkissjóð, og það ber að hafa áhyggjur af því þegar svona frumvörp koma inn.