142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ekki eru nema tveir mánuðir frá kosningum og Samfylkingin hefur þegar hafist handa við að endurskrifa söguna. Það var með ólíkindum að hlusta á hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur, sem var starfandi fjármálaráðherra á síðasta kjörtímabili, tala um að ég sem formaður fjárlaganefndar lúti í gras fyrir fjármálafyrirtæki sem starfar hér á landi. Ég var að benda á að þingmenn baka ríkinu skaðabótaábyrgð sé lagasetning ekki nógu vönduð og lög sett í þinginu sem fara gegn stjórnarskrá. Það var það sem gerðist með Árna Páls-lögin þrátt fyrir ítrekaðar aðvaranir um að þau lög, sem sett voru undir stjórn hv. þm. Árna Páls Árnasonar og Samfylkingarinnar, færu gegn stjórnarskrá. Samt voru þau keyrð í gegnum þingið. Á þeim lögum ber Samfylkingin fulla ábyrgð.

Það sem ég fór inn á í fyrri ræðu minni var einfaldlega þetta: Drómi er með skuld sem fyrirtækið telur að það eigi eftir að innheimta upp á 1.600 millj. Ég er að benda á að þetta er fyrirtæki sem þarf ekki að vernda vörumerki sitt vegna þess að það er í slitameðferð. Þess vegna getur fyrirtækið gengið svo hart fram en það telur sig líklega vera að starfa á jafnréttisgrundvelli miðað við önnur fjármálafyrirtæki.

Það sem ég benti á var þetta: Ég er þingmaður til að verja hagsmuni íslensku þjóðarinnar og þeirra þegna sem búa hér. Þess vegna benti ég á að það væri algerlega óásættanlegt að Drómi færi í mál við einstaklinga sem fyrirtækið telur sig eiga kröfu á. Nærtækast er fyrir fyrirtækið að fara í málsókn gegn ríkinu vegna þess að krafa fyrirtækisins á hendur einstaklingum gengur út á það að Árna Páls-lögin fóru gegn stjórnarskrá og líklega er ríkið skaðabótaskylt.