142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla hvorki að hrópa á aðra þingmenn né taka við hrópum frá þeim. Ég kem hér upp til að ræða þessa alvarlegu stöðu. Við slógumst við þessa aðila allt síðasta kjörtímabil. Við gerðum það sem við gátum. Við reyndum að koma með lagasetningu til að verja ákveðna hópa. Núna er staðan þannig að menn eru í þremur mismunandi hópum með gengislán sín eftir því hvernig gengislánadómar féllu. Þetta er eitthvað sem við verðum að halda áfram að vinna með.

Menn hafa sótt sínar kröfur, sínar ýtrustu kröfur eins og þetta fyrirtæki Drómi allt síðasta kjörtímabil og augljóslega ætla þeir að halda því áfram, virðulegi forseti. (Gripið fram í.) Þess vegna kem ég hér upp og kalla eftir því að við þingmenn setjum með einhverjum hætti upp varnir fyrir þá aðila sem lenda enn og aftur í hremmingum vegna þessa fyrirtækis.

Og hvað? Af því að ég sat í síðustu ríkisstjórn sem náði ekki að klára þetta mál? Það er rétt. (Gripið fram í.) En hún gerði það sem hún gat (Gripið fram í.) gegn ósvífnum fjármálaöflum. Þetta mál heldur áfram og verður sagan endalausa og við munum styðja þessa ríkisstjórn, nýja ríkisstjórn, í því að grípa til varna fyrir þá aðila verða fyrir barðinu á þessu fjármálafyrirtæki.

Virðulegi forseti. Það er einfaldlega það sem við erum að ræða. (Gripið fram í.) Ég skil ekki hvers vegna hv. þingkonur Vigdís Hauksdóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir þurfa að taka málinu svona. Bíddu, megum við þá bara ekkert hafa neina skoðun? Megum við ekki halda áfram að vinna eða hafa skoðun á þeim málum sem við unnum að allt síðasta kjörtímabil? Ég er að leggja til að við þingmenn og stjórnmálamenn (Forseti hringir.) sem störfum við þetta tökum til varnar fyrir þessa aðila. (Forseti hringir.) Ég vona að við getum öll staðið saman (Forseti hringir.) að því sama hvar í flokki við stöndum.