142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[15:36]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum.

Frá falli bankanna 2008 hafa langflestar breytingar sem gerðar hafa verið á lífeyristryggingakerfi almannatrygginga miðað að því að ná fram sparnaði í útgjöldum ríkissjóðs. Flestar þeirra breytinga sem gerðar voru á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra leiddu til umtalsverðra skerðinga á kjörum aldraðra og öryrkja. Þessar breytingar, sem aðallega voru innleiddar með lögum í júlí 2009, fólust meðal annars í því að fjármagnstekjur voru látnar skerða að fullu greiðslur almannatrygginga í stað 50% skerðingar áður. Frítekjumark ellilífeyrisþega vegna atvinnutekna var lækkað umtalsvert. Lífeyrissjóðstekjur voru í fyrsta skipti teknar inn í útreikning við ákvörðun grunnlífeyris og skerðingarhlutfall tekjutrygginga var hækkað verulega.

Í stefnuyfirlýsingu Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks kemur fram að afturkalla skuli skerðingar á frítekjumörkum og er fyrsta skrefið að því markmiði núverandi ríkisstjórnar tekið í frumvarpi þessu. Reyndar er hér gengið enn lengra og er það gert í ljósi þess að aldraðir og öryrkjar hafa beðið allt of lengi eftir leiðréttingu á kjörum sínum. Þykir rétt að nú, fjórum árum eftir að breytingarnar dundu yfir þessa hópa, verði hafist handa við að draga þær til baka og er það reyndar löngu tímabært að mínu mati.

Þær breytingar sem kveðið er á um í frumvarpi þessu fela í sér hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega og afnám skerðingar grunnlífeyris vegna lífeyrissjóðstekna. Hvað heimilismenn á dvalarheimilum og hjúkrunarheimilum varðar eru lagðar til sömu breytingar og hjá lífeyrisþegum að því er snertir hækkun frítekjumarks á atvinnutekjur. Einnig eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á gildandi ákvæðum um réttindi borgaranna og skyldur þeirra í samskiptum við stjórnvöld og þá eru eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar auknar í því skyni að tryggja réttar greiðslur og koma í veg fyrir bótasvik.

Virðulegi forseti. Ég mun nú skýra nánar efnislega frá þeim breytingum sem felast í frumvarpinu en eins og ég sagði áðan þá miða þær fyrst og fremst að því að bæta á ný kjör aldraðra og öryrkja á Íslandi. Í fyrsta lagi er í frumvarpinu gert ráð fyrir að við útreikning á fjárhæð tekjutryggingar verði frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega hækkað úr 480 þús. kr. á ári í 1.315.200 kr. á ári. Það samsvarar hækkun frítekjumarksins úr 40 þús. kr. á mánuði í tæpar 110 þús. kr. á mánuði. Frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega tóku gildi 1. janúar 2007 og nam þá 300 þús. kr. á ári eða 25 þús. kr. á mánuði. Hinn 1. júlí sama ár var sú breyting gerð að atvinnutekjur ellilífeyrisþega 70 ára og eldri höfðu engin áhrif á útreikning tekjutengdra bóta almannatrygginga og frítekjumark ellilífeyrisþega á aldursbilinu 67–69 ára var hækkað í 1,2 millj. kr. á ári.

Hinn 1. janúar 2009 var það frítekjumark einnig látið gilda um atvinnutekjur ellilífeyrisþega 70 ára og eldri og frá sama tíma var það hækkað um 9,6% samhliða hækkun fjárhæða almannatrygginga og var sú upphæð sem ég nefndi áðan, 1.315.200 kr. á ári. Frítekjumarkið var síðan lækkað í 480 þús. kr. á ári þann 1. júlí 2009 og hefur haldist óbreytt síðan þá. Í frumvarpi þessu er því lagt til að síðastnefnda breytingin verði afturkölluð og frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega hækki á ný og verði 1.315.200 kr. á ári frá 1. júlí næstkomandi. Þannig yrði það samkvæmt frumvarpinu, en við verðum að sjá til hvernig gengur síðan að afgreiða málið á Alþingi. Ég vona að það gangi hratt og vel. Er það sama frítekjumark og gildir gagnvart atvinnutekjum örorkulífeyrisþega.

Er tilgangurinn með þessu fyrst og fremst sá að stuðla að aukinni atvinnuþátttöku eldri borgara en ég tel mikilvægt að fólki sé gert kleift að stunda vinnu sem lengst til að auka lífsgæði þess og virkja krafta eldri borgara sem hluta af vinnumarkaðnum. Í öðru lagi er í frumvarpinu lagt til að greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum hafi ekki lengur áhrif á greiðslu elli- og örorkulífeyris, það er svokallaður grunnlífeyrir.

Allt þar til í júlí 2009 gilti sú regla að lífeyristekjur höfðu engin áhrif á útreikning grunnlífeyris almannatrygginga. Sú breyting var aftur á móti gerð þá að í fyrsta skipti töldust lífeyrissjóðstekjur til tekna við útreikning elli- og örorkulífeyris en áður höfðu aðeins atvinnu- og fjármagnstekjur haft áhrif til lækkunar við útreikning þeirra bótaflokka. Það hafði að mínu mati afar neikvæð áhrif á almannatryggingakerfi okkar Íslendinga og varð þess valdandi að greiðslur til 5.750 elli- og örorkulífeyrisþega lækkuðu eða féllu jafnvel alveg niður.

Ég vil í því sambandi nefna að ég tel afar brýnt að einstaklingar sem verið hafa á vinnumarkaði geti tryggt sér betri lífeyrisréttindi með greiðslu í lífeyrissjóð en þeir sem verið hafa utan vinnumarkaðar. Það styrkir undirstöðu lífeyrissjóðakerfisins að fólk sjái ávinning af því að greiða í lífeyrissjóði og stuðlar að betra samspili þess við almannatryggingakerfið. Það mun enn fremur geta leitt til þess að lífeyrisþegar hefji í auknum mæli töku lífeyris úr lífeyrissjóðum, sem er jákvætt þar sem auknar greiðslur úr lífeyrissjóðum leiða yfirleitt til hærri lífeyris til einstaklinga og draga þannig á sama tíma úr útgjöldum til almannatrygginga.

Það er mikilvægt að sú breyting sem gerð var um mitt ár 2009 og fól í sér hækkun á því hlutfalli tekna sem hafði áhrif til skerðingar tekjutryggingar til elli- og örorkulífeyrisþega verði afturkölluð. Það hlutfall var hækkað úr 38,35% í 45% frá 1. júlí 2009 en hafði áður farið lækkandi. Þannig fór það úr 45% í 39,95% árið 2007 og var síðan aftur lækkað í 38,35% árið 2008.

Í almannatryggingalögum er gert ráð fyrir að bráðabirgðaákvæði þetta renni út um næstu áramót og verði aftur 38,35%. Mun ég leggja áherslu á að ekki verði hróflað við því. Er það ekki síst í því ljósi að langflestir lífeyrisþegar, eða yfir 90%, fá greidda tekjutryggingu frá Tryggingastofnun ríkisins. Því mun gríðarlegur fjöldi fólks njóta góðs af þeirri breytingu í formi hærri bóta en áður. Því til viðbótar mun skerðingarhlutfall heimilisuppbótar lækka en það er leitt af lækkun skerðingarhlutfalls tekjutryggingar samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Það mun gera það að verkum að bætur til þeirra lífeyrisþega sem búa einir hækka hlutfallslega meira.

Fjárlagaskrifstofan hefur þegar kostnaðarmetið þau áhrif en heildaráhrif væntanlegra breytinga eru því um 4,6 milljarðar króna á ársgrundvelli þegar tekið er tillit til þeirra tillagna sem fram koma í frumvarpinu og auk þess varðandi skerðingarhlutfall tekjutryggingarinnar.

Virðulegi forseti. Ég tel engan vafa leika á því að verði þetta frumvarp að lögum muni það leiða til mjög bættra kjara eldri borgara og öryrkja. Við mat á áhrifum frumvarpsins kom það til dæmis í ljós að bætur munu hækka hjá yfir 7 þúsund manns og þar af munu um 2.500 lífeyrisþegar, sem misstu bætur í kjölfar sparnaðaraðgerða síðustu ríkisstjórnar, öðlast rétt til bóta á ný. Þá munu enn aðrir, tæplega 5 þúsund manna hópur, sem vegna tekna sinna hefur ekki talið sig eiga neinn rétt til bóta frá árinu 2009 vegna þeirra breytinga sem þá voru gerðar, nú geta sótt um bætur hjá Tryggingastofnun ríkisins.

En það eru ekki eingöngu efnislegar breytingar sem felast í frumvarpinu heldur eru enn fremur lagðar til breytingar sem varða samskipti Tryggingastofnunar ríkisins við borgarana. Áhrifin af því felast fyrst og fremst í auknu réttaröryggi borgaranna, til að mynda að þeir fari ekki á mis við réttindi sem þeir kunna að eiga tilkall til. Það er mikilvægt að kveða skýrt á um réttindi borgaranna og skyldur þeirra í samskiptum við stjórnvöld í lögum, meðal annars hvað varðar leiðbeiningar og rannsóknarskyldu, upplýsingaskyldu um meðferð persónuupplýsinga og þagnarskyldu. Er það einnig í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga að stjórnvöld veiti nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar. Þá eru ákvæði um skyldur umsækjenda, bótaþega og þeirra sem kunna að búa yfir upplýsingum sem varða ákvarðanir um bótarétt eða fjárhæðir bóta til að láta þær stofnuninni í té.

Í því efni er mikilvægt að hafa hugfast að Tryggingastofnun fer með mjög viðkvæmar upplýsingar og því mikilvægt að starfsfólk sé vel upplýst um þagnarskyldu sína og þá ábyrgð sem því fylgir að skýra frá upplýsingum sem það fær vitneskju um í starfi sínu og leynt eiga að fara. Gildir hið sama um stjórn stofnunarinnar og þá sem sinna verkefnum fyrir hana. Er það sérstaklega tekið fram í frumvarpinu að við meðferð persónuupplýsinga sem aflað er skuli Tryggingastofnun gæta þess að uppfyllt séu skilyrði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Í frumvarpinu er einnig skerpt nokkuð á eftirlitsskyldu og eftirlitsheimildum Tryggingastofnunar í því skyni að stuðla að réttum bótagreiðslum, koma í veg fyrir ofgreiðslur og vangreiðslur og fyrirbyggja bótasvik. Sú krafa er hávær að farið sé með fjármagn hins opinbera í samræmi við lög og reglur og til að svo megi verða er mikilvægt að opinberar stofnanir, þar á meðal Tryggingastofnun, hafi nægilegar heimildir til upplýsingaöflunar. Hefur Ríkisendurskoðun meðal annars fjallað um nauðsyn þessa í nýlegri skýrslu sinni um eftirlit Tryggingastofnunar ríkisins með bótagreiðslum og bent á að aðrar þjóðir, til dæmis á Norðurlöndunum, hafa ítarlegri ákvæði og heimildir hvað varðar aðhald og eftirlit. Eru slíkar heimildir enda taldar til þess fallnar að auka tiltrú almennings á almannatryggingakerfinu og fela í sér betri nýtingu á almannafé.

Endurskoðun almannatryggingakerfisins verður haldið áfram og við erum hvergi nærri hætt. Mikil vinna hefur verið lögð í þennan mikilvæga málaflokk í velferðarráðuneytinu og fyrir liggja tillögur nefndar sem unnið hefur um langt skeið að endurskoðun almannatryggingalaga. Við þurfum að halda áfram að reyna að finna leiðir til að bæta núgildandi kerfi en jafnframt að endurmeta fyrirliggjandi áform um breytingar á almannatryggingum. Þegar um svo mikilvægan málaflokk er að ræða er mikilvægt að flýta sér hægt og vanda fremur til verka. Ég tel afar brýnt að virkja vinnugetu aldraðs fólks og tryggja því sveigjanleika í starfslokum og lífeyristöku. Stilla þarf betur saman réttindi lífeyrisþega til greiðslna úr lífeyrissjóði annars vegar og almannatryggingakerfinu hins vegar og skapa þannig meiri sátt um samspil þessara tveggja meginstoða lífeyriskerfisins á Íslandi.

Á sama tíma þarf að vinna hörðum höndum að því að innleiða starfsgetumat í stað örorkumats sem við búum við í dag og leggja áherslu á að horfa til getu þeirra sem hafa skerta starfshæfni í stað vangetu þeirra til að vinna. Ég vil stórauka endurhæfingarmöguleika þeirra sem ekki geta tekið fullan þátt á vinnumarkaði og stuðla þannig að meiri atvinnuþátttöku þeirra sem hafa möguleika á því að vinna. Samhliða því er nauðsynlegt að stokka upp núgildandi bótakerfi fyrir öryrkja, einfalda það og skapa hvata til að ná því markmiði að fólk með skerta starfsgetu hafi möguleika á að vinna og uppskeri laun í samræmi við það.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til umfjöllunar hv. velferðarnefndar.