142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[15:48]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég óska hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra til hamingju með þetta frumvarp. Það er gott að fá það fram núna, þó að tíminn verði stuttur til að afgreiða það munum við gera allt sem hægt er til þess að vinna að framgangi málsins með hæstv. ráðherra.

Það eru nokkur atriði sem mig langar til að tæpa á í andsvari. Í fyrsta lagi verðum við að skoða þetta mál út frá kosningaloforðum sem gefin voru og stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um hvað átti að leiðrétta strax. Í öðru lagi út frá því hvað eru skynsamlegar leiðréttingar út frá langtímasjónarmiðum, þeim hugmyndum sem hafa verið uppi og þeirri miklu vinnu sem hefur verið unnin að breytingum á almannatryggingalögunum. Í þriðja lagi út frá því hvar brýnasta þörfin er nú til leiðréttingar.

Ég tek undir með hæstv. ráðherra um mikilvæg markmið um að auka virkni eldri borgara og reyna að auka atvinnuþátttöku öryrkja og bæta kjör og eins líka um mikilvægi samspils lífeyrissjóða og almannatrygginga sem og þann þátt sem er tekinn upp úr frumvarpinu um almannatryggingar um eftirlit þar sem heill kafli er bókstaflega færður inn í þetta frumvarp, 89.–99. gr. Ég fagna því enda er það hið besta mál.

Hér eru aðeins leiðréttar tvær af þremur skerðingum frá 2009, þ.e. hér er því frestað til áramóta að breyta úr 45% í 38,35%, sem er í samræmi við þau lög sem eru í gildi. Þar af leiðandi er það engin breyting frá því sem þar er og ekki verið að kalla neitt til baka. Ég spyr um það.

Í öðru lagi langar mig að spyrja ráðherra um samspilið á milli þessa frumvarps og hugmynda um almannatryggingar, um það að ná meiri sátt og reyna að ná betri tökum á þeim þáttum.

Í þriðja lagi spyr ég: Er það rétt skilið hjá mér að 7 þús. lífeyrisþegar, þar af 2.500 nýir og 4.500 af þeim sem eru á bótum í dag, fái hækkanir, þ.e. um það bil 11% af lífeyrisþegum? Aðrir munu ekki fá neitt. Þeir sem eru með lægstar bætur, (Forseti hringir.) eru bara á nöktum bótum og eru undir 250 þús. kr. tekjum munu ekki fá neinar bætur, er það líka (Forseti hringir.) rétt skilið hjá mér?