142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[15:54]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar verið var að undirbúa kostnaðarmatið öfluðu bæði velferðarráðuneytið og fjármálaráðuneytið sér upplýsinga sem snúa að kyngreiningu. Þar sem hér er fyrst og fremst verið að fjalla um að taka til baka þær skerðingar sem var farið í snýr þetta náttúrlega að þeim hópum sem urðu þá fyrir þessum skerðingum.

Ég vísa í pistil sem stjórnarformaður Tryggingastofnunar, Stefán Ólafsson, skrifaði í tengslum við þennan ársfund sem ég nefndi. Þar kemur fram að frá 2008 til 2013 hafi verið mikill munur á því hverjir urðu virkilega fyrir þessum skerðingum. Okkar loforð sneri að því að snúa við þessu ferli, þessum skerðingum, og í raun og veru má segja að að einhverju leyti ættum við að vera samherjar í þessu máli, við hv. þm. Guðbjartur Hannesson, því að það sem hér er verið að gera byggist að einhverju leyti á þeim umbótum sem voru gerðar á almannatryggingakerfinu árið (Forseti hringir.) 2008 sem miðuðu einmitt að því að auka hvata til atvinnuþátttöku og (Forseti hringir.) sparnaðar.