142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[15:55]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. ráðherra til hamingju með að taka við svo góðu búi að hennar fyrsta verk getur verið að koma hér í þingsal og mæla fyrir aukningu í framlögum til lífeyrisþega og almannatryggingakerfisins. Það var ekki það hlutskipti sem beið mín í félagsmálaráðuneytinu vorið 2009 og það er mjög gaman að sjá að aðstæður í ríkisbúskapnum og ástand ríkisfjármála er með þeim hætti eftir stjórnartíð okkar að hægt er að grípa til aðgerða sem þessara.

Ég vil hins vegar nefna að auðvitað stingur í augu hversu ójafnan hlut fólk fær. Bara til að draga saman nokkrar lykiltölur eru áhrif þessa frumvarps hjá lífeyrisþegum undir 250 þús. kr. á mánuði nokkurn veginn engin, lítil sem engin. Hjá lífeyrisþegum á bilinu 300–400 þús. kr. í tekjur er ávinningurinn á bilinu 16–22 þús. kr. og hjá lífeyrisþegum með lífeyristekjur yfir 400 þús. kr. er ávinningurinn 34 þús. kr.

Það stingur því í augu þegar líka er haft í huga að þeir sem njóta hér eru frekar karlar en konur hversu mikill hallinn er þegar horft er niður á við. Ég óska þeim lífeyrisþegum sem fá hækkun vegna þessara breytinga sannarlega til hamingju en áhyggjuefnið er að ríkisstjórnin telji ekki ástæðu til að grípa til neinna aðgerða gagnvart lakast stöddum lífeyrisþegum. Hvernig má það vera?