142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[16:05]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka kærlega fyrir svörin. Ég hef eins og allir aðrir þingmenn fengið að heyra margar sögur af skelfilegu ástandi hjá þessum samfélagshópum, sem ég hef áhyggjur af. Ef ekki verður farið mjög fljótlega í heildarendurskoðun á þessu kerfi okkar hef ég áhyggjur af því að þeir komi til með að halda áfram að þurfa að standa í biðröðum eftir matarúthlutun o.s.frv. Það verður náttúrlega gagnrýnt að þetta muni verða til þess að skattar verði hækkaðir á aðra borgara og jafnframt er ljóst að margir geta hreinlega ekki beðið lengi eftir því að farið verði í eitthvað annað en að lagfæra skerðingar út af því að allt hefur hækkað svo rosalega mikið á síðustu árum.

Mig langaði því aðeins að heyra hvort ráðherrann hafi einhvern tímaramma um hvenær eigi að ráðast í þessa heildarendurskoðun alla.