142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[16:06]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að fá að þakka þau góðu orð í minn garð sem hv. þingmaður fór með í fyrra andsvari. Ég ætla líka að nefna að farið var í heilmiklar jákvæðar breytingar 2008 af þáverandi ríkisstjórn og var meðal annars dregið úr tekjutengingum varðandi maka.

Það sem ég verð líka að segja er að þótt það vilji oft vera þannig að við gagnrýnum meira fyrrverandi stjórnvöld en við hrósum þeim mega þau aldeilis eiga það að þau reyndu eins og þau gátu, og við studdum það, að standa vörð um þá sem höfðu allra minnst á milli handanna. Þetta hins vegar sýndi sig í því að það varð veruleg kaupmáttarskerðing, sérstaklega hjá eldri borgurum, umtalsverð kaupmáttarskerðing meðan það náðist að standa vörð um kjör öryrkja.

Þetta er fyrsta skrefið. Við ætlum okkur að gæta að báðum þessum hópum og ég vonast eftir góðu samstarfi við alla þingmenn í öllum flokkum hér á þingi hvað það varðar.