142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[16:08]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frumvarpi sem er komið fram hér en vil gera nokkrar athugasemdir við það. Í fyrsta lagi vekur athygli, eins og ég nefndi í andsvari áðan við hæstv. ráðherra, að hér er sett í forgang að draga til baka afmarkaðan þátt þeirra breytinga sem gripið var til á árinu 2009 til að takast á við alvarlegan vanda í ríkisrekstri, en í því eru ekki aðgerðir sem nýtast þorra lífeyrisþega. Í frumvarpinu er einungis um að ræða breytingar til bóta fyrir um 11% lífeyrisþega. Það er því ekki hægt að líta svo á að hér sé að finna efndir á kosningaloforðum stjórnarflokkanna, síst af öllu Framsóknarflokksins. Satt að segja er að teiknast upp í stjórnmálunum á þessu sumri mynd af tiltekinni aðferðafræði sem stjórnarflokkarnir, og þá einkum Framsóknarflokkurinn, beittu í aðdraganda kosninga. Menn lofuðu miklu á öllum sviðum og efndirnar eru litlar og þeim vísað inn í framtíðina.

Hæstv. núverandi félagsmálaráðherra lofaði fyrir kosningar og hefur tjáð sig um það, líka eftir að hún tók við embætti, að dregnar yrðu til baka allar skerðingarnar frá árinu 2009. Um er að ræða frumvarp sem felur í sér mjög lítinn þátt þess og satt að segja er það þannig að það kemur líka fram í framsöguræðu hæstv. ráðherra að ekki stendur til að breyta neinu frá því sem fyrri ríkisstjórn hafði ákveðið og leitt í lög um skerðingarhlutfall, hið almenna skerðingarhlutfall og tímabundna hækkun þess úr 38,35% í 45. Með öðrum orðum, þrátt fyrir loforð Framsóknarflokksins um að draga strax til baka skerðingar frá árinu 2009 stendur ekki til að breyta neinu að þessu leyti frá því sem fyrri ríkisstjórn hafði ákveðið, engu. Það eru engar efndir hér.

Síðan eru höfð nokkuð óljós orð um reyndar mjög mikilvæga breytingu sem væri að vinda ofan af þeim miklu skerðingum sem nú eru á lífeyri vegna fjármagnstekna. Það sem við blasir er eiginlega alger brotlending úr loforðaflugi stjórnarflokkanna í aðdraganda kosninga þar sem menn finna litlu stað í frumvarpi. Hér teiknar sig upp sama myndin og í skuldamálum heimilanna, menn lofa miklu og koma svo með afskaplega lítið útfærðar tillögur á mjög afmörkuðum sviðum og vísa öðru til framtíðarinnar.

Það vekur líka athygli að ekki virðist vera horft til þess að byggja á þeirri vinnu sem hefur verið unnin í þverpólitísku samstarfi og með aðkomu aðila vinnumarkaðarins um nýtt almannatryggingakerfi. Hæstv. ráðherra sagði áðan að mikilvægt væri að vanda til þeirrar vinnu en tillögurnar sem hér er að finna núna um endurupptöku grunnlífeyris til allra eru auðvitað ekki í samræmi við þær tillögur sem þaðan komu.

Það er auðvitað þannig að sitt sýnist hverjum um skynsemi þess að greiða grunnlífeyri óháð lífeyristekjum. Sú stefnumörkun sem byggt var á á árunum 2008–2009 og svo áfram í félagsmálaráðuneytinu í málefnum almannatrygginga og hafði verið unnin aðallega af prófessor Stefáni Ólafssyni, fól í sér að grunnlífeyrir sem slíkur yrði lagður niður og að lífeyrisþegar færu á tilteknu tekjubili út úr hinu opinbera kerfi, það yrði hætt að greiða almenna fjárhæð, sem þá var rétt tæpar 30 þús. kr. og stendur nú í 34 þús. kr., sem væri grunnlífeyrir til allra óháð tekjum. Hugsunin þar að baki var sú að það væri kannski ekki endilega rökrétt á þeim tímum þar sem við erum í vaxandi mæli að veita fólki þjónustu í samræmi við þörf að greiða fólki sérstaka fjárhæð þegar það kæmist á tiltekinn aldur.

Um þetta má síðan deila og um það eru skiptar skoðanir og hægt er að færa gild rök fyrir hinu líka. Því verður þó ekki á móti mælt að það að taka aftur upp grunnlífeyrinn núna sem sjálfstætt markmið, þ.e. að taka aftur upp þá aðferð að greiða fólki með jafnvel mjög, mjög háar lífeyristekjur grunnlífeyri úr ríkissjóði, sú aðferð í sjálfu sér gengur þvert á þessa stefnumörkun sem búið er að ná og nú síðast í hinni góðu nefnd um nýtt almannatryggingakerfi undir forustu Árna Gunnarssonar, fyrrverandi alþingismanns, hún gengur í sjálfu sér gegn þeirri stefnumörkun.

Það er auðvitað verkefni ráðherra sem tekst á við það skemmtilega verkefni að fá meiri fjárframlög til þess að leggja inn í almannatryggingakerfið að reyna að gæta þess að nýta þau vel þannig að mikið verði úr þeim og helst þannig að okkur takist líka að eyða vandræðahliðarverkunum hins gamla kerfis og byggja upp nýtt kerfi sem virkar vel. Það er auðvitað svo að þrátt fyrir þetta frumvarp stendur hin almenna kjaraskerðing frá árinu 2009 eftir óbætt og hún mun verða bætt í samræmi við áætlun fyrri ríkisstjórnar og ekki fyrir tilverknað Framsóknarflokksins.

Eftir stendur hins vegar núna að verið er að leggja meira fé til almannatryggingakerfisins, en án þess að vinna gegn öllum þeim ókostum sem fylgja núverandi kerfi og þeir eru margir. Við búum við það í dag að 100% skerðing er á framfærsluuppbót. Fólk með lítinn lífeyri tapar honum öllum og það er ekki nein tilraun gerð til þess hér að verja fjármunum til þess að verja þessa litlu lífeyriseign hins venjulega fólks. Hún verður áfram skert 100%, króna á móti krónu. Áfram geta lífeyrisþegar lent í hinu alræmda falli krónu á móti krónu þar sem aukning lífeyristekna um eina krónu getur valdið því að þeir tapi hundruðum þúsunda.

Það voru svona pyttir sem við vorum að reyna að sneiða hjá. Það voru svona eyður í velferðinni sem við vorum að reyna að laga með nýju almannatryggingakerfi og til þess skipti máli að búa til heildstæða lausn. Þetta frumvarp boðar hins vegar fráhvarf frá þeirri hugmynd um nýja tegund kerfis þar sem við reynum að mæta öllum eins vel og kostur er, allflestum. Hér eru settir í öndvegi hagsmunir þeirra sem hafa allra mestar lífeyristekjur og þeir látnir skipta meira máli en allt þetta óréttlæti. Hæstv. ráðherra veit það eins og ég og við öll að fjármunir til almannatryggingakerfisins eru aldrei óþrjótandi.

Ég mun að sjálfsögðu styðja hana í allri hennar baráttu við að tryggja meira fjármagn til almannatryggingakerfisins, en veit líka af reynslu að þar er við ramman reip að draga. Ég þekki Sjálfstæðisflokkinn og hvernig hann hugsar í þeim efnum. Þegar ég kom með tillögurnar um aðhald í almannatryggingakerfinu frá árinu 2009 voru þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sumir í þessum sal, sem sögðu að þetta væri bara að vonum og reyndar hefðu þeir búist við meiru því að hækkanir á fjárhæðum bóta, úrbætur í almannatryggingakerfinu sem við höfðum ráðist í á árunum 2007–2008 hefðu alltaf verið innstæðulausar. Ég ítreka að ég mun styðja hæstv. ráðherra og við í Samfylkingunni munum styðja hæstv. ráðherra í að tryggja aukið fjármagn í kerfið, en það skiptir máli að halda áfram með alvöruúrbætur í almannatryggingum.

Ég vil þess vegna nota tækifærið og hvetja hæstv. ráðherra til þess að láta ekki deigan síga í því efni og halda áfram með vinnuna um heildstætt almannatryggingakerfi vegna þess að jafnvel þó að hún feli til dæmis í sér, og þær tillögur sem fyrir liggja nú feli í sér, að grunnlífeyririnn sé ekki greiddur öllum þá fela þær tillögur líka í sér úrlausn á mörgum þessum knýjandi vandamálum, ólíkum skerðingarhlutföllum milli bótaflokka, fallinu á krónunni og auðvitað líka skerðingunni á framfærsluuppbótinni króna á móti krónu. Það skiptir máli að leysa úr þeim gildrum öllum saman fyrir miklu, miklu stærri hóp lífeyrisþega en þau 11% sem nú fá ávinning af þessu frumvarpi.