142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[16:19]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir ræðu hans og þann stuðning sem hann lýsti yfir við að vinna að því að bæta kjör lífeyrisþega.

Ég vil ítreka það sem kom fram í ræðu minni, og hv. þingmaður virðist ekki hafa heyrt, að að sjálfsögðu er markmið mitt sem ráðherra, og ríkisstjórnarinnar, að halda áfram heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu. Ég fagna því þeim stuðningi sem kemur fram í orðum hv. þingmanns og formanns Samfylkingarinnar um að áfram verði unnið að því. Eitt af því sem ég hef velt fyrir mér er að koma þá jafnvel með sérstakt mál inn í þingið þannig að það liggi fyrir skýr stuðningur frá þinginu við að fara í þá heildarendurskoðun.

Það skal viðurkennast að það er eitt sem ég hef verið að velta mikið fyrir mér þegar ég hef verið að vinna að þessu frumvarpi — og raunar má segja að kannski allir ráðherrarnir í ríkisstjórninni hafi verið að velta því töluvert fyrir sér og það hefur komið ítrekað fram til dæmis á blaðamannafundi hjá hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra — og það snýr að fjárlagagerðinni og langtímaáætlun í ríkisfjármálum. Þar sem hv. þingmaður sat í ríkisstjórninni mundi ég gjarnan vilja fá svar við því hvort hv. þingmaður hafi gert sér grein fyrir því að í forsendum ríkisfjármálaáætlunar sem stjórnvöld hafa fylgt undanfarin ár í samstarfsáætlun við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn var gengið út frá því að þær tekjutengingar sem var farið í 2009, sem sagt skerðingar, yrðu framlengdar eða gerðar varanlegar og hvort það hafi verið vísvitandi þannig að menn gerðu ráð fyrir því að raunar hafi átt að framlengja þau bráðabirgðaákvæði sem eiga að falla úr gildi núna.