142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[16:24]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni kærlega fyrir að hafa svarað svona hreint og beint varðandi hvernig þetta kom til. Ég held líka að það sé mjög mikilvægt að farið sé vel yfir þessa langtímaáætlun í ríkisfjármálum, og það er það sem við höfum verið að gera, og að fyrrverandi fjármálaráðherra útskýri hver sé ástæðan fyrir því að þarna hafi vantað inn umtalsverðan, stóran kostnaðarlið eins og það að þetta bráðabirgðaákvæði ætti að falla úr gildi.

Hvað varðar hins vegar athugasemdir um heildarendurskoðunina vil ég meðal annars vísa til að þeirrar bókunar sem kom fram frá fulltrúum Landssambands eldri borgara við afgreiðslu á tillögum starfshóps um endurskoðun almannatryggingalaga um einföldun bótakerfis vegna ellilífeyris. Þar er einmitt tekið undir það að tillaga starfshópsins sé spor í rétta átt en að Landssambandið hefði viljað sjá að kjör eldri borgara hefðu verið bætt verulega, ekki í síst í ljósi þess að þeir hafi mátt sæta miklum skerðingum á kjörum sínum frá árinu 2008.

Síðan kemur hér, sem er lykilatriði:

„Jafnframt leggur LEB áherslu á að allir njóti þess sem LEB vill kalla grunnlífeyri almannatrygginga sem væri ígildi þess grunnlífeyris sem skertur var með tekjutengingu við lífeyrissjóðstekjur 1. júlí 2009. Sú skerðing hafði í för með sér að stór hópur meðaltekjufólks missti allan sinn grunnlífeyri …“

Þarna kemur alveg greinilega fram að menn hefðu viljað sjá þetta eins og er verið að leggja til hér, að þetta kæmi aftur inn, en það er alls ekki verið að útiloka að hægt sé að byggja á þeirri vinnu sem samráðshópurinn hefur lagt fram, því frumvarpi sem fyrrverandi velferðarráðherra hefur lagt fram, þeim hugmyndum sem við höfum sem stjórnarflokkar. Það er það sem ég er að segja, ég mundi gjarnan vilja sjá það og ég er að velta því fyrir mér að koma jafnvel inn með mál í þingið þar sem við gætum lagt ákveðnar línur um það hvernig við viljum nálgast þetta stóra verkefni.