142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[16:26]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra rekur að afstaða Landssambands eldri borgara var sú í endurskoðunarnefndinni að greiða bæri sérstakan grunnlífeyri óháð tekjum en sameiginleg niðurstaða annarra nefndarmanna var að svo yrði ekki. Ef hæstv. ráðherra er þeirrar skoðunar að það sé grundvallaratriði að greiða grunnlífeyri óháð tekjum þýðir það auðvitað að nýtt almannatryggingakerfi verður þeim mun dýrara. Það þýðir þá auðvitað að hennar bíður enn flóknari glíma við fjármálaráðuneytið og við að koma umgjörð um nýtt almannatryggingakerfi fyrir í ríkisfjármálaáætlun til næstu áratuga en við stóðum í á síðasta ári og var það þó ærinn vandi.

Það er þess vegna sem ég held að það skipti máli að horfa til þess sammælis sem náðist í nefndinni því að ég geri mér alveg grein fyrir því að Landssamband eldri borgara setti fram þessa kröfu, en það varð auðvitað ákveðið sammæli í nefndinni um bestu mögulegu niðurstöðu og fólst sú tillaga í að ráðstafa því heildarfjármagni sem væri til ráðstöfunar með eins hagkvæmum hætti og mögulegt er. Nú er verið að ráðstafa hluta af því fjármagni í að tryggja grunnlífeyri fyrir alla, jafnvel fólk með 500 þús. kr. í lífeyristekjur á mánuði, og þeir peningar verða þá ekki notaðir fyrir þorra lífeyrisþega.