142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[16:28]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég segi það aftur að ég fagna því að hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra komi fram með þetta frumvarp og óska eftir góðu samstarfi eins og hæstv. ráðherra. Ég heiti því að við munum vinna með ráðherranum að bestu lausnum í þessum málaflokki, ekki veitir af. Þetta er erfiður málaflokkur og vandmeðfarinn. Þetta er stór útgjaldaliður í ríkisfjármálunum og er augljóst að málið kemur seint hér inn vegna þess að það er slagur um hvaða upphæðir setja eigi í málaflokkinn. En það þýðir þá auðvitað líka að við þurfum að vinna að því máli sem kemur hér síðar á dagskrá sem er það frumvarp sem flutt var í marsmánuði síðastliðnum og fór til umsagnar. Hæstv. ráðherra benti réttilega á að ýmsar athugasemdir og ábendingar komu við frumvarpið sem full ástæða er til að skoða. En ég hvet til þess að sú vinna haldi áfram og þarf í sjálfu sér ekki endilega að fara fram með þingsályktunartillögu til þess að fara einu sinni enn í gegnum málið vegna þess að búið er að fara vel í gegnum það. Ég held að endurskoðun á almannatryggingum hafi staðið yfir frá því 2005, 2006, 2007. Búið er að setja hóp eftir hóp í því skyni, en ég rek það betur þegar við ræðum hitt frumvarpið á eftir.

Hæstv. ráðherra bendir á það að hér sé fyrst og fremst verið að draga til baka skerðingar og að þetta séu aðeins fyrstu skrefin. Ég sagði það í andsvari áðan að mér finnist það skipta máli að þegar maður skoðar svona mál sé hægt að skoða það út frá þremur sjónarhornum fyrst og fremst. Auðvitað er meginsjónarhornið: Hvernig nýtist það lífeyrisþegum? Hvernig nýtist það ellilífeyrisþegum? Hvernig nýtist það örorkulífeyrisþegum? Mun það hjálpa þeim sem við viljum helst hjálpa? Er þetta í forgangi? Er þörfin brýnust hér? Það eru auðvitað þau sjónarhorn sem við eigum að hafa númer eitt, tvö og þrjú.

Í öðru lagi finnst mér skipta miklu máli að skoða hvort þær tillögur sem hér eru geti orðið hluti af heildarendurskoðun og orðið þar af leiðandi skref fram á við í endurskoðun á almannalöggjöfinni sem við höfum rætt um undanfarin ár, ýmist sem stjórnmálamenn eða sem hluti af almenningi þessa lands. Almannatryggingalögin eru mjög ógagnsæ, þau eru óskýr og flókin. Það er erfitt að skilja þau. Það eru miklar tengingar í kerfinu sem þýðir að litlar breytingar hafa áhrif í kerfinu öllu og er erfitt að eiga við það. Þess vegna var verið að glíma við að búa til frumvarp sem yrði mikil einföldun á því. En þriðja sjónarhornið sem snýr að pólitíkinni eru auðvitað kosningaloforðin, þegar maður gengur til kosninga með ákveðin fyrirheit, ákveðnar yfirlýsingar.

Ég geri mér alveg grein fyrir því að þegar tveir stjórnmálaflokkar mynda ríkisstjórn verða auðvitað báðir aðilar að gefa eftir af kosningaloforðum sínum og búa svo til einhvern stjórnarsáttmála. Fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar fyrst og fremst að leiðrétta eigi strax tekjutengingar, raunar tengingar við atvinnutekjur og hins vegar fjármagnstekjur. Menn geta svo sem togast á um hvað gert er strax miðað við það sem lofað var. Ég ætla ekki að eyða miklum tíma í það en ég held að það sé samt óhjákvæmilegt að velta því fyrir sér vegna þess að í tillögunum í frumvarpinu eru fyrst og fremst fjögur atriði; það fyrsta er hækkun frítekjumarka vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega. Það kemur ágætlega fram í frumvarpinu, að vísu er það orðað þannig að það sé fyrst og fremst til að auka virkni og tryggja að menn eigi betra ævikvöld, geti tekið þátt í atvinnulífi og öðru slíku lengur en verið hefur og fái sveigjanleg starfslok.

Allt eru það göfug markmið og ég styð þau eindregið, en það er ljóst að þarna er gríðarlegur munur á einstaklingum, þ.e. hversu góðar atvinnutekjurnar eru og hvernig möguleikarnir eru. En þarna er aftur á móti ekkert talað um fjármagnstekjur eins og var þó í stjórnarsáttmálanum, ekki er minnst á það. Ég harma það svo sem ekki sérstaklega en vek athygli á því vegna kosningaloforðanna.

Í öðru lagi er í frumvarpinu afnám skerðingar grunnlífeyris vegna lífeyrissjóðstekna. Það var mjög umdeilt atriði. Ég verð að viðurkenna það hreinskilnislega að þegar ég varð ráðherra þá hélt ég að grunnlífeyrir væri án allra skerðinga og þannig er gjarnan rætt um það, en það hefur aldrei verið þannig. Allar atvinnutekjur og aðrar tekjur hafa skert grunnlífeyrinn. Það eina sem stóð út af voru lífeyrissjóðstekjur. Þeim var bætt við og þá var auðvitað hugsað til þess, sem er það misvægi sem er í kerfinu, að t.d. opinberir starfsmenn, sem eru með miklu betri lífeyrissjóð en almenni markaðurinn, miklu hærri lífeyrissjóði, ættu óháð öllu alltaf að fá óskertan grunnlífeyri á meðan við værum í þrengingum. Þar þurfti að beita aðhaldi eins og annars staðar í ríkisfjármálum. Þá var ekki rökrétt að allir fengju þessi þrjátíu og eitthvað þúsund óháð því hvaða tekjur þeir hefðu úr lífeyrissjóðnum. Þar eru einstaklingar sem hafa jafnvel nokkur hundruð þúsund út úr lífeyrissjóðum.

Það var spurning um ráðstöfun á fjármunum. En nú er verið að skila þessu til baka, sem er aðeins úr takti við það sem er í almannatryggingafrumvarpinu sem lagt var fram í mars síðastliðnum og við endurflytjum hér, þingmenn Samfylkingarinnar, fyrst og fremst til að viðhalda umræðunni og til þess að tryggja að þetta verði keyrt saman, þ.e. breytingarnar sem hér eru og hugmyndirnar sem komu úr þverpólitískum, þverfaglegum hópi sem unnið hafði í þrjú ár.

Í þriðja lagi er hér atriði sem hefði nú verið gaman að fá betri skýringar á. Það eru áhrif annarra tekna sem lífeyrisþegar og heimilismenn á dvalar- og hjúkrunarheimilum kunna að hafa sér til framfærslu og áhrif þessara tekna á greiðslur almannatrygginga. Það er líka þannig að menn borga fyrir það að vera á hjúkrunarheimilum. Ef maður er kominn inn á hjúkrunarheimili er nú ekki mikið um atvinnutekjur nema í alveg sérstökum tilfellum vegna þess að menn komast hreinlega ekki inn á hjúkrunarheimili lengur í gegnum færnismat nema að vera orðnir býsna mikið veikir eða þurfa mikla aðstoð og hafa ekki möguleika á að vera heima.

Í fjórða lagi er ákvæði um leiðbeiningar- og upplýsingaskyldu, eftirlit og meðferð persónuupplýsinga. Það er tekið beint upp úr frumvarpinu sem flutt var í vor og ég fagna því að það komi þarna inn. Þarna eru víðtækari heimildir til Tryggingastofnunar. Þetta er í rauninni 8. kafli úr því frumvarpi, lagagreinar nr. 89–99 eru þarna nánast orðréttar, ég held að það séu ein eða tvær setningar sem bætt er inn í nýja frumvarpið. Því ber að fagna. Kostnaðurinn við þessar breytingar á að vera 850 millj. kr. á þessu ári og 1,7 milljarðar á ári miðað við það sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Því til viðbótar koma svo leiðréttingar sem ákveðnar voru með lögum og verið hafa til umræðu fyrr í dag, þ.e. að lækka skerðingarmörkin frá 45% niður í 38,35% að nýju.

Það sem vekur athygli við frumvarpið og mér finnst ekki vera í anda þess sem lofað var í kosningunum er að þær breytingar verða bara eins og lögin gerðu ráð fyrir, þær koma til framkvæmda um áramótin. Hér hefur verið umræða um hvernig á því stóð að það vantaði inn í ríkisfjármálaáætlunina, ég vona að það hafi verið nægar skýringar, en það lá alltaf fyrir að lögin áttu að falla niður um áramót og að hækka yrði gjöldin sem því næmi. Það var notað sem rök, meðal annars þegar við lögðum almannatryggingafrumvarpið fram í mars, að það væru peningar sem ráðstafa þyrfti um næstu áramót að öllu óbreyttu. Þarna er að mínu mati farið hægar í hlutina en ég átti von á miðað við kosningaloforðin sem gefin voru, en eftir sem áður er það jákvæð breyting sem ég ætla ekki að gera sérstaka athugasemd við.

Það sem ekki er í frumvarpinu en ég hafði átt von á að yrði þar eru frítekjumörk vegna fjármagnstekna, það eru leiðréttingar á því sem sagt strax frá 45% í 38,35%. Ekki er heldur tekið á þessu með sérstaka framfærsluuppbót sem sett var á til að mæta þeim sem höfðu engan annan lífeyri og skerðist króna á móti krónu. Þessi uppbót getur verið í kringum 37–40 þús. kr. á mánuði og var sett með þessum hætti. Það sem er skondið og athyglisvert í frumvarpinu og jafnframt táknrænt fyrir almannatryggingafrumvarpið er að þær hækkanir sem eru í frumvarpinu munu skerða sérstöku framfærsluuppbótina af því að þar er króna á móti krónu-skerðing. Ef maður fær hækkun á grunnlífeyri og hækkun á tekjutryggingunni mun það skerða heimilisuppbótina. Sumir munu þar af leiðandi ekki fá neitt. En það er bara vandi kerfisins að ef maður bætir við á einum stað þá skerðist sem því nemur á öðrum. Þess vegna þarf að gera heildarendurskoðun á kerfinu.

Stjórnarandstaðan á síðasta kjörtímabili gagnrýndi mjög harðlega að bætur fylgdu ekki verðlagi. Það hefur líka verið gagnrýnt af hagsmunasamtökum. Það vekur líka furðu mína að ekki skuli gerð tilraun til að ná til heildarhópsins með einhverri leiðréttingu í þá átt. Ég geri mér alveg grein fyrir að hún er dýr en hægt er að færa fyrir því rök að þessir aðilar hafi dregist aftur úr. Þá skuldum við þeim að leiðrétta það, ekki aftur í tímann heldur fram í tímann, en hvergi er gerð tilraun til þess þarna að bæta úr. Ég hvet hæstv. ráðherra til þess að reyna að skoða það og reyna að bæta þar úr.

Það er líka athyglisvert, af því að hér er eingöngu verið að draga til baka skerðingar, að hæstv. ráðherra viðurkennir og bendir á að öryrkjar hafi komið betur út úr lækkunum en ellilífeyrisþegar. Það er nú aldeilis frábrugðið því hvernig umræðan hefur verið á undanförnum vikum og mánuðum. Auðvitað verður hæstv. ráðherra að svara Öryrkjabandalaginu sem gerir athugasemdir við að frumvarpið nái nánast ekkert til öryrkja. Það gerir almannatryggingafrumvarpið heldur ekki nema að takmörkuðu leyti, þó þannig að dregið er úr skerðingum á þessari sérstöku framfærsluuppbót einfaldlega vegna þess að sá kafli er eftir, Öryrkjabandalagið var ekki með í þeirri vinnu af fullum krafti. Það er auðvitað eitt af stóru verkefnunum inn í framtíðina að draga bandalagið að borðinu og finna út langtímalausnir hvað þessi mál varðar.

Það kom mér líka á óvart hvað við náum í raun til fárra af þeim sem fá lífeyri. Auðvitað þýðir það að fá lífeyri ekki endilega það að menn séu með fullar greiðslur en ellilífeyrisþegar eru um það bil 26–27 þúsund. Ég hef ekki nákvæma tölu fyrir árið í ár en árið 2011 voru þeir 26.250 þúsund talsins. Örorkulífeyrisþegar voru rúmlega 15 þús. Samtals eru þetta 41 þús. lífeyrisþegar og ef við segjum að þarna hafi 7 þús. lífeyrisþegar hækkað, þar af eru 2.500 nýir, erum við að tala um að 4.500 manns fái hækkun. Það er ekki nema rétt rúmlega tíundi hver aðili sem fær hækkun núna um önnur mánaðamót. Ég held að það hljóti að valda vonbrigðum hjá mörgum sem bundu miklar vonir við að hér yrðu breytingar strax á sumarþingi og við höfum heitið stuðningi við að reyna að finna til þess svigrúm. Það leiðir auðvitað hugann að forganginum þegar menn rýra tekjur en fá ekki pening til þess að bæta þá upp það sem upp á vantar. Það leiðir líka til þess að einhverjir nýir lífeyrisþegar koma þarna inn sem ekki hefur verið talið að þyrftu á bótum að halda.

Það er auðvitað mikið meira hægt að segja um þetta frumvarp en ég ætla ekki að fara sérstaklega yfir það. Þarna eru athyglisverðar setningar, sérstaklega í umsögn fjármálaráðuneytisins. Það er til dæmis athyglisvert að lesa um allar þær breytingar sem gerðar voru 2007 og 2008, sem kostuðu raunar á milli 10 og 15 milljarða á þeim tíma. Það var í valdatíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Þá voru gerðar gríðarlega miklar endurbætur. Við urðum síðan að draga þær til baka eftir hrunið að hluta en ekki að öllu leyti og makatengingin var til dæmis eitt af því sem vannst þá. Það er líka athyglisvert að átta sig á því að þessi 45% skerðing var við lýði allan tímann sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkurinn voru völd. Hún var minnkuð í stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og var breytingin síðan dregin til baka þegar hrunið varð.

Það er líka mjög athyglisvert að sjá í umsögnum að ætlaður ávinningur af breyttum bótaréttindum er meiri eftir því sem tekjur lífeyrisþega eru hærri.

Það er athyglisvert sem segir í frumvarpinu, með leyfi forseta, þetta er á blaðsíðu 15, að „lífeyrisþegar sem hafa hvað lægstu kjörin hafa lítinn ávinning af breytingum frumvarpsins“. Það er auðvitað umhugsunarefni, eins það sem snertir stöðu kvenna.

Talað er um skerðingu og að skila eigi til baka, eins og ekkert hafi verið gert á síðastliðnum fjórum árum. Hæstv. ráðherra vakti þó athygli á því að gerð var sérstök tilraun og hefur það vakið athygli um allan heim hvernig okkur tókst að verja lægstu kjörin. Þó að það megi með sanni segja að það hafi ekki verið nóg og að við þurfum að gera það áfram og betur þá var það reynt með þessari sérstöku framfærsluuppbót. Ef við skoðum útgjöldin bara frá 2010 á verðlagi hvers árs þá voru útgjöldin til bótaflokka almannatrygginga árið 2010 55,5 milljarðar og hækkar á árinu til 2013 upp í 74,2 milljarða. Það er hækkun upp á 33,3%. Auðvitað skilar það sér ekki á einstaka lífeyrisþega af því að þarna er um að ræða fjölgun og breytingar hvað það varðar, en það er augljóst að lagt hefur verið verulega mikið í þennan málaflokk á sama tíma og skera þurfti niður í öðrum málaflokkum og er full ástæða til að halda því til haga.

Ég óska eftir góðu samstarfi við áframhaldandi vinnu við almannatryggingar með hagsmuni lífeyrisþega í huga, hvort sem það eru ellilífeyris- eða örorkulífeyrisþegar, og treysti á og veit að málið er í ágætum höndum (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra. Ég tel að við munum eiga gott samstarf um það.