142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[16:43]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir ræðuna. Í henni kom fram ein spurning sem ég mundi vilja bregðast við. Það var varðandi áhrif annarra tekna dvalarmanna á framfærslu. Eins og kemur fram í greinargerð frumvarpsins erum við að skoða áhrif og afnám annarra skerðinga og er þetta að sjálfsögðu eitt af því sem við munum skoða í þeirri vinnu.

Ég vil líka ítreka að með frumvarpinu er ekki verið að skerða einn eða neinn. Það er verið að taka til baka skerðingar sem farið var í 2009 en ekki verið að skerða einn eða neinn.

Ég vísa í tölur sem stjórnarformaður Tryggingastofnunar tók saman og kynnti á ársfundi Tryggingastofnunar. Þar kemur það nákvæmlega fram sem hv. þingmaður fór í gegnum í ræðu sinni, þ.e. hvernig ráðstöfunartekjur lífeyrisþega þróuðust. Ráðstöfunartekjur öryrkja hækkuðu um 21% á tímabilinu að nafnvirði en tekjur eldri borgara aðeins um 6,8%. Þar sem verðlag hækkaði umtalsvert meira lækkaði kaupmáttur lífeyrisþega en talsvert meira hjá eldri borgurum.

Það voru einungis lífeyrisþegar með allra lægstu tekjurnar sem voru varðir gegn kreppuáhrifum með hækkun lágmarkstryggingar almannatrygginga þann 1. janúar 2009 en lífeyrisþegar með meðalháar og hærri lífeyristekjur fengu hins vegar umtalsverða skerðingu við þetta, og það einkum 1. júlí 2009. Þetta er fyrsta skrefið í að taka þetta til baka og að sjálfsögðu verður unnið að því að bæta kjör allra lífeyrisþega áfram.