142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[16:46]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get í sjálfu sér ekki litið á þetta sem andsvar, ég held að við séum sammála um þau atriði sem hér voru dregin fram. Í fyrsta lagi er mér fullkunnugt um, ég geri mér alveg grein fyrir því og tek undir það með hæstv. ráðherra, að ekki er verið að skerða neinn. Þetta er til bóta fyrir þá sem fá hér hækkun. Það kom mér á óvart, eins og ég sagði, að þetta næði ekki til fleiri, að við skyldum ekki ná nema til 10–12% þeirra sem eru á bótum í dag. Einhverjir nýir komu inn sem hafa verið í hærri tekjum og ekki fengið bætur, það ber að fagna því líka. En áhyggjur mínar beinast að því að jafnvel þó að við höfum varið kaupmátt þeirra sem minnst höfðu þá er sá hópur í hvað erfiðastri stöðu. Við verðum bara að vera hreinskilin með það og þurfum að glíma við það áfram.

Þær tölur sem vitnað var í frá formanni stjórnar Tryggingastofnunar ríkisins, Stefáni Ólafssyni, eru þær tölur sem við vorum alltaf að kynna og ræða hér á síðasta kjörtímabili en mættum litlum hljómgrunni. Menn vefengdu þær og töluðu illa um þær á þeim tíma. Ég fagna því að hæstv. ráðherra hefur áttað sig á því að þetta voru breytingarnar á þessum tíma og ég deili þeirri skoðun að það þarf að ná til ákveðinna hópa ellilífeyrisþega til að taka skerðingar til baka en við verðum eftir sem áður að verja hagsmuni þeirra sem mest þurfa á því að halda.

Mig langar að heyra aðeins betur um það frá ráðherra hvað varðar samspil þessara nýju hugmynda sem voru í almannatryggingafrumvarpinu og þess sem kemur fram í þessu frumvarpi, það er samspil lífeyrissjóðanna og almannatryggingakerfisins, þetta tveggja stoða kerfi sem þarf að vinna mjög vel saman. Hér er verið að bæta það að hluta, það var búið að gera með víxlverkunum sem áttu að kosta allt upp í 1,5 milljarða á næstu tveimur árum. Hvað verður um það í þessum breytingum? Ég geri mér alveg grein fyrir að við munum halda áfram þessari vinnu, við erum ekki hætt, en ég hef tjáð mig um að það kom mér á óvart hvað þetta var lítið í fyrstu lotu.

Ég hlakka mjög til að heyra hvaða aðrar breytingar verða gerðar til hagsbóta fyrir þessa hópa.