142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[16:48]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum oft rætt það hér í ræðustól að til ætti að vera annað orð en andsvar við ræðum. Stundum er um að ræða meðsvar og stundum erum við bara að ræða málin almennt, og ég held að við séum að gera það hér. Þegar kemur að almannatryggingum erum við öll sammála um að við viljum gera eins vel og við getum.

Önnur áhugaverð glæra var sýnd á þessum fyrirlestri hjá stjórnarformanni Tryggingastofnunar. Þar voru teknar saman ráðstöfunartekjur öryrkja og eldri borgara frá 2008 og 2013, meðaltal og miðgildi. Það sýnir sig að öryrkjar eru árið 2013 með tæplega 220 þús. kr. að meðaltali, miðgildi 201 þús. kr. rúmlega, meðan eldri borgarar eru með 217 þús. kr. að meðaltali, miðgildi þá 195 þús. kr. Þetta endurspeglast í þeim aðgerðum sem farið var í; þegar það er síðan borið saman við stöðuna eins og hún var áður var hún töluvert önnur 2008 milli þessara hópa. Þetta skipti máli þegar verið var að vega og meta það á hverju best væri að byrja þegar við værum að stíga fyrstu skrefin í því að afnema þessar skerðingar.

Síðan er talað um skerðingarhlutfallið á tekjutryggingunni og eins og fyrrverandi ráðherra, hv. þm. Guðbjartur Hannesson, nefndi þá er fjöldinn allur af ákvæðum sem hafa ýmis áhrif innbyrðis og mörg af þeim eiga víst að falla úr gildi um áramótin. Eitt af því tengist þessari víxlverkun sem hv. þingmaður nefndi sérstaklega í lokaorðum sínum í andsvarinu áðan.