142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[16:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar. Þær eru mjög veigamikill og stór þáttur í velferðarkerfinu okkar. Velferðarkerfið gengur út á það, þ.e. tekjuöflunarhluti þess og tekjujöfnunarhluti, að hinir vinnandi í þjóðfélaginu greiða og þeir sem ekki eru vinnandi fá bætur til þess að standa undir framfærslu og lifibrauði sínu.

Þeir sem fá bætur eru í fyrsta lagi börn, þ.e. barnabætur. Námsmenn fá lán fyrir framfærslu hjá lánasjóðnum, svo eru styrkir frá sveitarfélögum og fleira. Síðan eru það öryrkjar, sem eru það fólk sem verður óvinnufært á starfsævinni, sem fær bætur og svo aldraðir sem geta ekki unnið og eru ekki taldir eiga að vinna vegna elli og ellihrumleika.

Með þessum hætti er velferðarkerfið notað til þess að flytja lífskjör frá einum hópi til annars í þjóðfélaginu. Um þetta er mikil sátt í þjóðfélaginu. Það er mikilvægt að halda henni.

Ég hef margoft bent á að við erum með ótrúlega flókið kerfi. Húsnæðiskostnaður er t.d. bættur með vaxtabótum þar sem menn þurfa að skulda nógu mikið til að fá bætur og hafa ekki of háar tekjur. Það er í gegnum skattkerfið. Síðan eru það húsaleigubætur sem að mínu mati eru arfavitlausar, af því að sömu tekjuviðmiðin gilda þar fyrir einstakling sem býr í íbúð og sex manna fjölskyldu. Sex manna fjölskylda fær eiginlega aldrei húsaleigubætur af því hún getur ekki lifað á þeim tekjumörkum sem um er að ræða, 166 þús. kr., þá byrja bæturnar að skerðast. Svo erum við líka með heimilisuppbót í Tryggingastofnun til að bæta líka húsnæði. Við erum með sérstakar reglur fyrir stúdenta hjá LÍN sem búa einir og aðra sem búa saman eða hjá foreldrum sínum. Þar er líka verið að bæta húsnæðiskostnað. Svo erum við með sérstakar húsaleigubætur og svo framvegis.

Börn eru tryggð mjög víða. Í fyrsta lagi eru það barnabætur sem eru borgaðar í skattkerfinu, merkilegt nokk. Síðan greiðir Tryggingastofnun barnabætur til öryrkja og ellilífeyrisþega ef þeir eru með börn. Þær eru skattfrjálsar af einhverjum ástæðum. Vinnandi fólk sem vinnur við hliðina á öryrkja fær ekki barnabætur með þeim hætti. Þar kemur fram ákveðin mismunun.

Barnabætur felast í því að ríkið tryggir meðlög og svo eru barnabætur líka inni í húsaleigubótum, merkilegt nokk, því að eftir því sem fleiri börn eru í heimili hækka húsaleigubæturnar. Svo eru það mæðralaun og feðralaun.

Þetta er flækjustig kerfisins, þó er ég ekki byrjaður að tala um öryrkja. En þar er einn mjög stór galli. Ég skora á hæstv. ráðherra að laga þann galla, þ.e. 75% örorkumatið. 75% örorkumatið gerir að verkum að maður getur ekki endurhæfst. Ef hann endurhæfist niður í 74% fær hann bara örorkustyrk, sem er mjög lágur, í staðinn fyrir örorkulífeyri. Þá kemst hann engan veginn af. Bæði læknar og öryrkinn og allt kerfið veit að ef maðurinn skyldi nú endurhæfast missir hann allt, þar af leiðandi endurhæfist hann bara ekki. Þannig er það.

Undanfarið hafa komið fram hugmyndir, reyndar að mínu frumkvæði, um að skoða frekar getu manna, líta á það sem öryrkinn getur og leyfa honum að vinna ákveðinn hluta án skerðinga. Þetta er hið svokallaða starfsgetumat sem er núna í tísku. Það þarf að koma því á og verður að koma á svo að við séum ekki að fara í raun mjög illa með þá sem verða öryrkjar.

Aldurstengda örorkuuppbótin er skrýtilegt fyrirbæri í þessu kerfi öllu. Henni var ætlað að mæta því að menn fengju ekki framreikning hjá lífeyrissjóðum, en hún missir algjörlega marks. Menn geta bæði verið með aldurstengda örorkuuppbót og fengið framreikning.

Undanfarið hefur verið starfandi nefnd, að frumkvæði síðustu ríkisstjórnar, en verkefni hennar var að skoða samspil lífeyrissjóða og almannatrygginga. Það gerðist nefnilega árið 2008 í september, rétt fyrir hrun, að sett var reglugerð um framfærsluuppbót, kostaði voða lítið, hækkaði allan lífeyri hjá þeim sem áttu ekki neinar tekjur, ekki úr lífeyrissjóði eða neins staðar, um 20% rétt fyrir hrun.

Mér finnst ekki gæta mikillar sanngirni hjá fólki sem meðvitað sleppir þessari hækkun ef það ætlar að ræða um stöðu ellilífeyris- og örorkulífeyrisþega. Þá á að taka þessa hækkun með. Allur lífeyrir hækkaði um 20%, en þar sem skerðingin er króna á móti krónu eyðilagði þetta í rauninni lífeyrissjóðakerfið vegna þess að það skiptir ekki máli fyrir fólk hvort það er með 70 þús. kr. úr lífeyrissjóði eða 73 þús. kr. úr lífeyrissjóði núna eða ekki neitt. Það þýðir að allt það fólk, sérstaklega lágtekjufólk með lágar tekjur og ekki mikil réttindi í lífeyrissjóði, fær ekkert fyrir að borga í 40 ár í lífeyrissjóð.

Nefndin lagði því mikla áherslu á að laga þetta. Samkomulag náðist um það en það var dýrt samkomulag. Ég var með fyrirvara um það vegna þess hversu dýrt það var, og ég kem inn á það á eftir af hverju það má ekki vera allt of dýrt. Þar átti að þynna út framfærslubótina á fimm árum þannig að fólk fengi eitthvað fyrir að borga í lífeyrissjóð eða hafa greitt í lífeyrissjóð.

Mér leiðist þegar talað er um að enginn eigi rétt í lífeyrissjóði vegna þess að það hefur verið skylda, lagaskylda, að borga í lífeyrissjóð frá 1974 fyrir alla launþega og fyrir alla sjálfstætt starfandi frá 1980. Þess vegna leiðist mér að heyra menn tala um að einhver sé ekki með rétt í lífeyrissjóði. Sá hlýtur að vera orðinn meira en 100 ára. Það eru 32 ár liðin og 39 ár í öðru tilfellinu frá því að fólk var skyldað til að borga í lífeyrissjóð. Allir sem hafa unnið á starfsævinni eiga að vera með rétt í lífeyrissjóði nema þeir sem eru orðnir yfir 100 ára. Þeir eru örfáir. Þeir gætu hafa lent í því að eiga ekki rétt. Hinir eiga rétt, mismunandi mikið.

Ég var formaður Landssambands lífeyrissjóða í tíu ár eða lengur og þá komumst við að því að 40 þús. manns borguðu ekki í lífeyrissjóð þótt þeir hefðu átt að gera það. Við töldum þá sem borguðu í lífeyrissjóð og töldum síðan þá sem voru á vinnumarkaði. Það skeikaði 40 þús. manns. Þeir standa núna fyrir framan Tryggingastofnun og eiga ekki rétt í lífeyrissjóði, en þeir áttu að borga í lífeyrissjóð samkvæmt lögum. Það var bara engin eftirfylgni með því fyrr en 1978.

Ég vil helst ekki heyra talað miklu meira um að fólk hafi ekki rétt í lífeyrissjóði. Síðan kemur náttúrlega til Íslands fólk frá útlöndum sem hefur starfað alla starfsævina í útlöndum og á engan rétt í lífeyrissjóði hérna. Maður spyr sig: Það fólk valdi eitthvert land til að starfa í, hefur það ekki væntanlega borgað í tryggingakerfið þar eða tryggt sig sjálft? Mér finnst ekki réttmætt að það komi til Íslands og segi: Ég á engan rétt í lífeyrissjóði.

Tekjuhugtakið í frumvarpinu er sem endranær, ég hef aldrei skilið það, félagsleg aðstoð. Hún skal ekki teljast sem tekjur. Ef einhver fær félagslega aðstoð upp á 100 þús. kall eru það ekki tekjur, en ef hann er að skúra eða eitthvað slíkt eru það tekjur. Ég hef aldrei skilið þetta. Þetta eru jafn miklar tekjur inn í heimilið eins og hvað annað. Svo hafa menn sagt: Félagsleg aðstoð er ætluð fyrir kostnaði.

Frú forseti. Ég veit ekki hvað stór hluti af mínum tekjum er ekki ætlaður fyrir kostnaði, líklega sá hluti sem ég spara, sem er ekki skynsamlegt. Ég kem inn á það á eftir.

Tekjuhugtakið er líka fjármagnstekjur og frumvarpið kemur einmitt inn á það. Þær voru helmingur áður fyrr vegna þess að fjármagnstekjur eru ekki tekjur, yfirleitt ekki. Þær eru tap, a.m.k. núna. Menn geta verið með 4% vexti á innstæðum og verðbólgan er 5% og þeir tapa. Fyrst borga þeir 20% skatt af 4%, þ.e. 0,8%, og svo eru þeir skertir í lífeyrissjóði í Tryggingastofnun. Lengi vel voru tekin 50% af fjármagnstekjum vegna þess að þetta eru yfirleitt ekki tekjur. Eftir hrun var ein af bráðabirgðaaðgerðunum sú að taka allar fjármagnstekjur 100%. Það fór illa með mjög marga, sérstaklega þá sem höfðu sýnt ráðdeild og sparsemi um ævina sem er ekkert sérstaklega virðingarvert á Íslandi lengur. Það þótti einu sinni gott að menn sýndu ráðdeild og sparnað, en greinilega ekki lengur.

Þegar við ræðum þetta frumvarp verðum við að hafa í huga þá nefnd sem starfaði með fulltrúum allra flokka, þar á meðal Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Ég var fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í nefndinni. Hún komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri gott að hafa frítekjumörk, það væri betra að hafa þau ekki og hafa prósenturnar lægri og ráða við aukninguna sem stafaði af því að setja framfærsluuppbótina inn í kerfið sem kostar óhemju og gefur betri lífeyrisrétt. Í frumvarpinu er bakkað frá því. Þess vegna var ég með fyrirvara í mínum flokki um frumvarpið vegna þess að ég hafði lagt til annað annars staðar.

Hér er lagt til að taka inn að menn geti unnið. Jú, það er góð hugsun að aldraðir geti unnið sem lengst. Ég er til dæmis kominn á þennan aldur og er að vinna akkúrat núna, frú forseti. Ég er samt á móti því að þetta sé gert vegna þess að það er ekki þannig að menn tapi öllum tekjunum, það eru ákveðnar skerðingar. Það er 45% eða 38% skerðing og það er ekki þannig að menn tapi öllum tekjum. Menn ættu að líta þannig á að starf sé ekki bara tekjuöflun, það er líka ákveðið hlutverk í lífinu sem ég held að sérstaklega þeir sem eiga að fara á lífeyri meti miklu meira. Það er svo merkilegt að fólk vill endilega fara snemma á lífeyri þangað til kemur að því. Þá vill það yfirleitt ekki eða síður fara á lífeyri.

Við getum alls ekki rætt þetta mál nema við tökum framtíðina inn í það. Ef menn líta á aldurspíramída íslensku þjóðarinnar, sem menn ættu að glugga í öðru hverju, má sjá að u.þ.b. 4.400 manns eru frá 0 ára og upp í 56 ára, plús/mínus 500 manns. Þetta er nánast flatur píramídi. Það þýðir að það eru alltaf jafn margir sem vinna. Þó árgangarnir fari í gegn eru alltaf nokkurn veginn jafn margir sem vinna.

Ef maður lítur á hinn endann, t.d. 70 ára, þá eru 2.200 manns í árgangnum sem nú er 70 ára. Og 71 árs er hann 1.900. Það verður tvöföldun — ég ætla að segja það aftur — það verður tvöföldun á nýgengi aldraðra á næstu 15 árum. Þessir aldraðir þurfa tekjur. Lífeyrissjóðirnir standa undir því að einhverju leyti með lífeyri, en þessi hópur þarf líka heilbrigðisþjónustu vegna þess að þegar menn eru orðnir gamlir þurfa þeir miklu meiri heilbrigðisþjónustu en þegar þeir voru ungir. Þetta verðum við sem þjóð að horfast í augu við og gæta okkar að gera vel við aldraða. Það er bara þannig. Við getum ekki lestað þá sem eru vinnandi, sem alltaf eru jafn margir, meira en góðu hófi gegnir. Þá fara þeir til útlanda og skilja okkur gamlingjana eftir.

Þetta er mjög vandasamur línudans sem við verðum að dansa. Við vonumst náttúrlega til þess að hagsæld aukist, framleiðslan aukist. Framleiðni þjóðfélagsins hefur aukist gífurlega, þ.e. það eru sífellt færri og færi sem vinna fyrir fleirum og fleirum. Spurningin er um að dansa línudansinn rétt og stíga ekki út af. Þess vegna þurfa menn að hafa í huga þegar þeir ætla að bæta kjör aldraðra — sem ég er mjög hlynntur að sjálfsögðu, hver vill ekki bæta kjör aldraðra? — að horfa til þeirra sem greiða, þ.e. til hins vinnandi hóps, og að skattlagningin á hann verði ekki of mikil.

Mér sýnist að þau mistök hafi verið gerð eftir hrun að skattleggja of mikið. Fjárfesting er í algjöru lágmarki, atvinna myndast ekki í þjóðfélaginu og fólk flytur til útlanda eða gengur um atvinnulaust eða fer í nám til að bjarga sér fyrir horn og bíða eftir hvort ástandi lagist ekki. Við verðum að auka fjárfestingu. Þegar við höfum aukið fjárfestingu getum við farið að tala um að bæta kjör aldraðra og öryrkja, því það eru alltaf hinir vinnandi sem greiða fyrir það.