142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[17:07]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum. Vil ég byrja á því að óska hæstv. félagsmálaráðherra til hamingju með sitt fyrsta frumvarp á Alþingi.

Frumvarpinu er eins og okkur er kunnugt ætlað að leggja til breytingar á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra sem fela í sér aukin bótaréttindi elli- og örorkulífeyrisþega með hærri greiðslum úr ríkissjóði. Ég legg áherslu á orðin aukin bótaréttindi, en ég vík nánar að þeim síðar, enda er fyllilega þess virði að ræða hér hvort um er að ræða aukin bótaréttindi fyrir þann hóp sem um ræðir, aldraða og öryrkja.

Eins og hér hefur verið rætt var ákveðið að bregðast við aðsteðjandi vanda í ríkisfjármálum vegna efnahagshrunsins, falls bankanna, haustið 2008 og því gríðarlega mikla tekjufalli sem ríkissjóður varð fyrir eins og okkur öllum er kunnugt um. Þá var farið í aðhaldsaðgerðir ríkissjóðs til að mæta þessu gríðarlega tekjufalli. Ein af þeim var sú að fallið var frá auknum lífeyrisréttindum úr opinbera almannatryggingakerfinu sem höfðu verið veitt á grundvelli ákvarðana stjórnvalda frá árinu 2007, með gildistöku á árinu 2008 eða í byrjun árs 2009. Þá höfðu bótaþegar ekki haft þau réttindi fram að því.

Frumvarp hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra Eyglóar Harðardóttur snýr einkum að því að afturkalla þær kerfisbreytingar sem gerðar voru í aðhaldsskyni á árinu 2009 á bótaréttindum lífeyrisþega. Ég verð að lýsa því yfir að því ber að fagna að fyrsta frumvarp nýskipaðs félags- og húsnæðismálaráðherra skuli snúast um afturköllun þeirra breytinga.

Ég fagna því líka að hér séu lagðar til lagabreytingar á starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins sem varðar leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu stofnunarinnar og að eðlilegt eftirlitshlutverk og starfsemi stofnunarinnar eigi að efla og lögfesta. Þó svo að stjórnsýslulög hafi ávallt náð yfir stofnunina er kannski verið að skerpa það enn frekar með frumvarpi ráðherra.

Það er líka margt sem er umhugsunarvert, svo ekki sé meira sagt, í frumvarpi hæstv. ráðherra og ætlar sú sem hér stendur að skauta aðeins yfir það.

Í fyrsta lagi er aðeins lagt til að kalla til baka tvær kerfisbreytingar af sex. Það er í fyrsta lagi hækkun frítekjumarka vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega þar sem áhrif annarra tekna sem lífeyrisþegar og heimilismenn á dvalar- og hjúkrunarheimilum kunna að hafa sér til framfærslu á greiðslur frá almannatryggingum minnka frá því sem nú er.

Í öðru lagi, eins og rakið hefur verið, er lagt til að lífeyrissjóðstekjur skerði ekki lengur grunnlífeyri elli- og örorkulífeyrisþega.

Þar með er það komið. Þá vantar ýmislegt upp á til að ljúka afturköllun þeirra breytinga sem ráðist var í árið 2009. Til að mynda er frítekjumörkum vegna fjármagnstekna samkvæmt stjórnarsáttmála ekki breytt. Leiðrétting skerðingarhlutfalls tekjutryggingar frá 1. júlí 2009 upp á 45% í 38,35% kemur ekki strax fram. Eldri ákvörðun er látin standa og skerðing krónu á móti krónu á sérstakri framfærsluuppbót er ekki breytt.

Hér er ekki um að ræða leiðréttingar á bótafjárhæðum sem er og hefur verið helsta baráttumál Öryrkjabandalags Íslands, þ.e. að bætur haldist í hendur við verðlag. Einnig er ekki dregið til baka eða leiðrétt afnám skerðingar grunnlífeyris vegna lífeyrissjóðstekna sem einnig hefur verið helsta réttlætis- og baráttumál Öryrkjabandalagsins. Þeim kröfum er ekki svarað í frumvarpinu og það ber að harma.

Þá má nefna, líkt og hv. þm. Guðbjartur Hannesson, fyrrverandi velferðarráðherra gerði áðan, jafnréttissjónarmið en í mati fjármálaráðuneytisins er sérstaklega tekið út hver áhrif frumvarpsins eru á jafnrétti kynjanna eða út frá kynjasjónarmiðum. Þar kemur fram að konur eru 58% þeirra sem fái ellilífeyri og 62% þeirra sem fá örorkulífeyri. Meiri hluti þeirra sem fá hækkun á greiðslur nú eru karlar.

Það liggur ekki fyrir hvort hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hafi áform um að fella úr gildi eða afnema líka skerðingarnar fjórar frá árinu 2009 sem út af standa og ef svo er, hvenær það verði gert.

Það sem ég sakna líka í þessu frumvarpi og hefði viljað sjá er einhvers konar aðgerðaáætlun með nákvæmum markmiðum um það hvenær og hvernig skerðingar vegna efnahagsþrenginga ganga til baka, en það ber stjórnvöldum að gera samkvæmt eftirlitsnefnd Sameinuðu þjóðanna með samningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.

Ef við vindum okkur svo lengra inn í kjarna frumvarpsins og þann anda sem í því ríkir er hann því miður sá, eins og áður hefur kannski verið rakið, að breytingarnar sem nú á að afturkalla hafa einkum áhrif á þá lífeyrisþega sem hafa einhverjar aðrar tekjur til viðbótar við bætur almannatrygginga. Þeir lífeyrisþegar sem hafa hvað lægstu kjörin hafa lítinn ávinning af breytingum frumvarpsins.

Ástæða þess er sú að þær breytingar sem lagðar eru til felast ekki í hækkun fjárhæða einstakra bótaflokka, eins og ég nefndi áðan, heldur fyrst og fremst í minni tekjutengingu og hækkun frítekjumarka gagnvart öðrum tekjum. Í því ljósi er vert að draga fram að af þeim 43.784 ellilífeyris- og örorkuþegum sem fá lífeyrisgreiðslur í dag nær hækkunin sem kveðið er á um nú í frumvarpi hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra til 7 þús. lífeyrisþega. Af 43.784 nær hækkunin til 7 þús. — ég endurtek þetta svo þetta komist betur inn í huga okkar. Langstærstur hluti þeirra er ellilífeyrisþegar.

Það þýðir ekki að ég sé á móti því að ellilífeyrisþegar fái hækkun heldur er ég á móti því að þetta þýði í reynd enn og aftur að þeir sem hafa lægstar bætur fái ekki leiðréttingu á kjörum sínum samkvæmt frumvarpinu.

Ef við rýnum í kostnað ríkissjóðs við frumvarp hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra eru hæg heimatökin að lesa sjö blaðsíðna umsögn skrifstofu opinberra fjármála fjármálaráðuneytisins sem fylgir frumvarpinu. Fyrir það fyrsta eru áætluð áhrif frumvarpsins á stöðu ríkissjóðs á ársgrundvelli a.m.k. 4,6 milljarðar kr. Svo á eftir að sjá hvort þau útgjöld aukist eins og fram kemur í umsögn skrifstofunnar.

Það ber svo sannarlega að fagna því ef staða ríkissjóðs er nú orðin svo góð að hæstv. ráðherra meti það sem svo að hægt sé að ráðast í framkvæmd frumvarpsins þótt ekki rími það við sterk orð annarra forustumanna ríkisstjórnarinnar um bága stöðu ríkissjóðs.

Að auki er í umsögn fjármálaráðuneytisins tekið undir það sem ég nefndi áðan um misskiptingu leiðréttingarinnar sem felst í frumvarpinu. Í umsögninni segir um áhrif frumvarpsins á lífeyrisþega, með leyfi forseta:

„Áætlaður ávinningur af breyttum bótaréttindum er meiri eftir því sem tekjur lífeyrisþega eru hærri. Á hinn bóginn munu lífeyrisþegar sem hafa hvað lægstu kjörin hafa lítinn ávinning af breytingum frumvarpsins.“

Áfram heldur, með leyfi forseta:

„Þannig munu ellilífeyrisþegar sem hafa á bilinu 300–400 þús. kr. í heildartekjur fá hækkun sem nemur 16–22 þús. kr. að meðaltali á mánuði en þeir sem hafa heildartekjur 250 þús. kr. eða lægri fá 0–2 þús. kr. meðalhækkun.“

Í umsögninni segir síðan að hækkanir örorkulífeyrisþega séu áætlaðar talsvert lægri en hjá ellilífeyrisþegum, innan við 1 þús. kr. á mánuði. Þannig er áætlað að þeir sem hafa á bilinu 300–400 þús. kr. í heildartekjur fái um 2–4 þús. kr. meðalhækkun en þeir sem hafa innan við 250 þús. kr. fái næstum enga hækkun.

Af því að lítið hefur borið á tekjuöflunarleiðum fyrir ríkissjóð í tillögum og frumvörpum ríkisstjórnarinnar blasir við að velta því fyrir sér hvaða tekjuöflunarleiðir eru mögulegar til að framkvæma þetta frumvarp til laga sem við ræðum hér. Þar langar mig að vitna áfram í umsögn skrifstofu opinberra fjármála fjármálaráðuneytisins þar sem segir enn fremur um þetta, með leyfi forseta:

„Þau 850 millj. kr. viðbótarútgjöld sem leiða mundu af frumvarpinu á þessu ári fara í bága við núgildandi fjárlög fyrir árið 2013 og rúmast ekki innan fjárheimilda velferðarráðuneytisins. Enn fremur liggur fyrir að ekki hefur verið gert ráð fyrir viðlíka útgjaldaaukningu í þeirri ríkisfjármálaáætlun sem fylgdi með fjárlagafrumvarpi ársins 2013. Afkoma ríkissjóðs samkvæmt þeirri áætlun mun því versna á ársgrundvelli frá og með árinu 2014 sem nemur 1,6 milljörðum kr. vegna beinna áhrifa af lögfestingu frumvarpsins. Til viðbótar er einnig gert ráð fyrir að frá og með árinu 2014 falli til 3 milljarða kr. útgjöld þar sem að hlutfall tekjutengingar vegna tekjutryggingar lækkar samkvæmt fyrirliggjandi áformum. Að samanlögðu er því áætlað að frá og með árinu 2014 nemi árleg aukning útgjalda til almannatryggingakerfisins um 4,6 milljörðum kr. í tengslum við þessar ráðstafanir.“

Ég var búin að nefna þetta fyrr í ræðu minni, en þetta er sem sagt talan sem er viðbúin í tengslum við þessar ráðstafanir og áætlað er að muni hækka.

Það er einnig áhugavert sem skrifstofa opinberra fjármála nefnir í umsögn sinni um tekjuöflunarleiðir til að mæta ráðstöfunum í þessu frumvarpi, sem ekki nær að mæta kröfum þessa hóps nema að hluta til sem um ræðir, þ.e. aldraðir og öryrkjar. Til þess að mæta þeim hópi þarf að fara í niðurskurðaraðgerðir eða skattahækkanir eða lántökur með tilfallandi vaxtagjöldum.

Ég velti því fyrir mér hvort, þótt andinn sé góður og viljinn líka, um sé að ræða ógerlegan gjörning. Skattahækkanir í framtíðinni, það er varla eitthvað sem núverandi ríkisstjórn vill bekenna. Ekki hefur það verið andinn sem hefur ríkt hjá þeirri ágætu ríkisstjórn.

Enn og aftur. Niðurstaðan eftir lestur frumvarpsins er sú að langstærstur hópur öryrkja fær ekki leiðréttingu. Þá eru náttúrlega hæg heimatökin að áætla að það sé andi frumvarpsins og kjarni þess. Það má líka velta fyrir sér hvort frumvarpið sé kannski frekar í anda yfirlýsinga um markmið Sjálfstæðisflokksins í aðdraganda kosninganna í vor frekar en Framsóknarflokksins í þessum málaflokki.

Kunnugt er að fyrir kosningarnar einblíndu sjálfstæðismenn á að afturkalla kjaraskerðingu ellilífeyrisþega og afnám tekjutenginga ellilífeyris en horfðu minna til alls hóps lífeyrisþega. Það var hins vegar ekki sá tónn sem forustumenn Framsóknarflokksins slógu. Til að mynda lýsti formaður Framsóknarflokksins því m.a. yfir þann 26. apríl sl. að nauðsynlegt væri að bæta öllum lífeyrisþegum skerðingarnar frá 2009. Undir þetta tók núverandi formaður fjárlaganefndar, oddviti Framsóknarflokksins í Reykv. s., Vigdís Hauksdóttir. Eftir stendur því miður að fyrsta frumvarp hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hefur áhrif á kjör fámenns hóps öryrkja. Það hljóta að vera vonbrigði fyrir ráðherrann sem ég trúi einlæglega að hafi lagt fram frumvarpið og barist fyrir því í góðri trú.