142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[17:21]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðu hennar. Það er tvennt sem ég vil sérstaklega koma inn á í andsvari mínu.

Hv. þingmaður fór aðeins í gegnum kostnaðarmatið. Ég hef áður komið upp í andsvar hvað það varðar. Í umsögn fjármálaskrifstofunnar stendur, með leyfi forseta:

„Í forsendum ríkisfjármálaáætlunar sem stjórnvöld hafa fylgt undanfarin ár í samstarfsáætlun með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefur verið gengið út frá því að þessi tekjutenging“ — hér er verið að vísa til skerðingarhlutfallsins — „yrði framlengd eða gerð varanleg eða að gerðar væru jafngildar ráðstafanir […].“

Nú hefur það komið fram í svari frá hv. þm. Árna Páli Árnasyni að svo virðist vera sem tillögur velferðarráðuneytisins um að fella þetta úr gildi 31. desember 2013 — þetta ætti í raun og veru að vera fallið úr gildi — hafi verið hunsaðar af fjármálaráðuneytinu. Er það eitthvað sem hv. þingmaður vill svara fyrir eða kannast hann við að gerðar hafi verið þessar breytingar? Og hvort hv. þingmaður sé sáttur við að þetta hafi verið framlengt og jafnvel talað um að framlengja það áfram.

Síðan vil ég ítreka að þetta er stjórnarfrumvarp sem báðir stjórnarflokkarnir standa að og er fyllilega í samræmi við stefnu beggja stjórnarflokka. Í bæklingi sem var dreift í Reykjavík stóð einmitt þessi setning: „Kjaraskerðing sem samþykkt var 2009 verði afturkölluð.“ Svo einföld var sú setning. Þetta er nákvæmlega samhljóða því sem kom fram í ályktun flokksþings framsóknarmanna, auk þess sem við höfum talað fyrir því að vinna að öðrum kjarabótum gagnvart þessum hópum sem og öllum landsmönnum.

Síðan vil ég líka ítreka að sem mikill stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar hef ég það mikla trú á þeirri efnahagsstefnu sem við boðum að ég er tilbúin að leggja þetta frumvarp fram á sumarþingi og standa fyrir því. Ég efast ekki um að það muni koma fram tillögur hér þegar kemur að fjárlögum fyrir næsta ár (Forseti hringir.) sem varða fjármögnun á þeim.