142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

slysatryggingar almannatrygginga.

6. mál
[17:26]
Horfa

Flm. (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um slysatryggingar almannatrygginga. Frumvarp þetta var samið í velferðarráðuneytinu, samhliða frumvarpi til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning, og lagt fram sem stjórnarfrumvarp á vorþingi 2013, 635. mál á 141. löggjafarþingi.

Bæði frumvörpin, þ.e. þetta og frumvarpið um almannatryggingar og félagslegan stuðning, eru nú lögð fram aftur og flutt af þingflokki Samfylkingarinnar. Þar er fyrst og fremst verið að minna á þessi frumvörp og tryggja að sú mikla vinna sem er á bak við hugmyndir um breytingar á almannatryggingalögum nýtist áfram og spili saman einmitt með því frumvarpi sem hér var til umræðu frá hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra. Ég kem betur að því þegar við ræðum hitt frumvarpið hversu mikilvægt það er að þarna er líka um að ræða uppstokkun á lögunum og breytingar og samræmingar sem er mikilvægt að halda til haga, líka vegna þess að þar var þverfagleg og þverpólitísk vinna í gangi um langt skeið sem skilaði þessari niðurstöðu og mikilvægt að hún verði nýtt áfram.

Við gerð þessa frumvarps var haft náið samráð við Sjúkratryggingastofnun sem annast framkvæmd slysatrygginganna og byggt á tillögum lögfræðinga stofnunarinnar. Tilefni frumvarpsins var samning nýs frumvarps um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning en af því leiðir að flytja þarf ákvæði slysatryggingakafla gildandi laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum, ásamt öðrum nauðsynlegum ákvæðum laganna í sérstök lög sem lagt er til að heiti: Lög um slysatryggingar almannatrygginga.

Ætlunin er að þau lög muni síðan standa sjálfstætt við hlið laga um sjúkratryggingar og fyrirhugaðra laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning og mynda þannig heildstæða lagaumgjörð um meginþætti almannatrygginga. Því til viðbótar eru í gildi ýmis sérlög á sviði félagslegs öryggis, bæði hjá ríki og sveitarfélögum.

Vegna þessa tilefnis stendur ekki til að sinni að endurskoða frá grunni efni trygginganna eða orðalag ákvæða umfram það sem brýna nauðsyn ber til í tengslum við stærra frumvarpið. Þó má telja að auðveldara verði er frá líður að breyta ákvæðum um slysatryggingar þegar þau hafa verið færð í sérlög og aðgreind frá almennum lífeyristryggingum almannatrygginga, enda er um eðlisólíkar tryggingar að ræða.

Ekki eru því lagðar til miklar efnislegar breytingar í frumvarpi þessu frá gildandi ákvæðum um slysatryggingar í lögum um almannatryggingar, aðrar en þær að lagt er til að slysahugtaki laganna verði breytt lítillega í endurflutningi hér. Þannig er lagt til að bætur og bótafjárhæðir verði þær sömu og áður og skilyrði til öflunar bótanna eru að mestu óbreytt. Einnig eru í frumvarpinu lögð til almenn ákvæði sem eru svo til samhljóða samsvarandi ákvæðum í frumvarpi til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning. Er í þeim tilvikum vísað til athugasemda við samsvarandi greinar í því frumvarpi.

Þótt ekki séu lagðar til miklar efnislegar breytingar í frumvarpinu er þó gert ráð fyrir nokkrum breytingum með hliðsjón af niðurstöðum úrskurðarnefndar almannatrygginga og lagt til að tekin verði af tvímæli varðandi vafatilvik sem upp hafa komið í framkvæmd.

Samkvæmt framansögðu verður ekki séð að frumvarpið hafi sérstakar afleiðingar fyrir almannahagsmuni eða helstu hagsmunaaðila, samanber einnig umfjöllun í athugasemdum við 9. og 11. gr. Þá verður ekki séð að frumvarpið hafi áhrif á stöðu kynjanna, af því að það er hluti af því sem þarf að skoða við framsetningu frumvarpa.

Hér á eftir eru tilgreindar helstu breytingar frá gildandi lögum en í athugasemdum við einstakar greinar er gerð grein fyrir því hvaða áhrif efnislegar breytingar hafa þegar það á við.

Þessar helstu breytingar frá gildandi lögum eru:

1. Slysatryggingakafli laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum, er meginefni frumvarpsins en ákvæðin sett upp með örlítið breyttum hætti. Kveðið er á um markmiðið með slysatryggingum, gildissviðið er afmarkað og nokkur hugtök skilgreind.

2. Með hliðsjón af dönskum og norskum vinnuslysarétti og íslenskum vátryggingarétti er gert ráð fyrir að heimilt verði að fella niður bótagreiðslur samkvæmt lögunum hafi hinn slasaði verið valdur að slysinu af stórkostlegu gáleysi.

3. Gert er ráð fyrir því nýmæli að greiða kostnað við iðjuþjálfun og talþjálfun.

4. Lagt er til að sjúkrahjálp greiðist að jafnaði ekki vegna kostnaðar sem fellur til þegar liðin eru a.m.k. fimm ár frá slysdegi en eftir það fari um rétt hins slasaða samkvæmt almennum ákvæðum laga um sjúkratryggingar.

5. Gert er ráð fyrir tíu ára hámarksfresti undanþágu til að tilkynna slys, að liðnum eins árs tilkynningarfrestinum, og bætt við því skilyrði að berist tilkynningar síðar skuli læknisfræðileg orsakatengsl vera ljós milli slyssins og einkenna hins slasaða.

6. Lagt er til að örorkulífeyrir greiðist frá 18 ára aldri til samræmis við aldursviðmið annarra laga um bætur úr almannatryggingum.

7. Það er nýmæli að í fyrsta skipti er gerð grein fyrir því á hvers konar örorkumati varanleg læknisfræðileg örorka er byggð í slysatryggingum almannatrygginga. Efni ákvæðisins er í samræmi við framkvæmd sem verið hefur en er nú sett þarna inn í frumvarpstextann.

Ég tel ekki ástæðu til að eyða lengri tíma í að gera grein fyrir frumvarpinu. Það liggur fyrir í þingskjali, en lagt er til að það fari til hv. velferðarnefndar og til 2. umr. og hljóti þar skoðun samhliða því frumvarpi sem var hér áður og þeim breytingum sem nauðsynlegt er að gera á almannatryggingalögunum. Ég treysti á að þeirri vinnu verði hraðað eins og hægt er og nýtt sú mikla vinna sem unnin hefur verið á síðustu árum til að við getum átt nýrra, einfaldara og skýrara almannatryggingafrumvarp og þá ný lög og skýrari um slysatryggingar almannatrygginga.