142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

slysatryggingar almannatrygginga.

6. mál
[17:35]
Horfa

Flm. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. ráðherra til hamingju með afmæli dótturinnar. Ég hvet hana eindregið til að fara að sinna því verkefni og engin ástæða til að hlusta á ræðu mína, hún getur fengið útskrift af henni. Ég mun örugglega koma þeim sjónarmiðum sem þar eru á framfæri og ég veit að hún þekkir málið líka allvel.

Ég fagna því að hæstv. ráðherra segi að mikilvægt sé að halda vinnunni áfram og ég held að það sé það mikilvægasta fyrir lífeyrisþega þessa lands, að við reynum að komast eins hratt og vel áfram í að einfalda og bæta almannatryggingakerfið og kjör þessara hópa. Ég treysti á að það sé sameiginlegt markmið okkar allra hér í þinginu.