142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

slysatryggingar almannatrygginga.

6. mál
[17:38]
Horfa

Flm. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal þekkir þessi mál afar vel og hefur rætt þau oft áður. Hann kann kannski betur svörin en ég varðandi margt af því sem er nefnt. Hér eru nefnilega einmitt gamlir draugar, hlutir sem þarf að ræða.

Það er alveg ljóst að það er einmitt vaxandi vandamál, samspilið á milli þeirra opinberu trygginga sem einstaklingar taka og hins vegar opinbera kerfisins sem veitir slysatryggingar og þá líka hvort kemur á undan. Það er gjarnan ágreiningsatriði vegna þess að sum tryggingafélög setja það þannig fram að ef einhver einstaklingur verður fyrir slysi tryggja þeir það sem ekki er borgað af almannatryggingum. Spurningin hefur verið hvort þetta ætti að vera öfugt, að sá sem hefur keypt sér tryggingu, það sé borgað fyrst og síðan grípi almannatryggingar sem öryggisnet inn í á eftir.

Þetta er ákvæði sem þarf að skýra miklu betur, ég skal taka undir það með hv. þingmanni, og er hluti af því sem þarf að vinna áfram og er tengt því sem við munum ræða í tengslum við almannatryggingarnar, þetta er atriði sem þarf að skoða betur.

Varðandi örorkubæturnar og 75% örorku er öllum kunnugt, og hv. þingmaður var einmitt í starfshópnum um almannatryggingar, að eitt af því sem hefur verið barist fyrir af honum og fleirum er að taka upp starfsgetumat, þ.e. að snúa þessu við og fara að greina hver geta fólks er til vinnu í staðinn fyrir að tala um það sem er vangeta til vinnu og skilgreinir örorkuna sem 75%. Það eru engin sérstök rök fyrir þessum 75% og það þarf auðvitað að vera stigbreytileg örorka. Það er hluti af því sem er líka tilgreint sem mikilvægt að vinna áfram í framhaldinu.

Í þriðja lagi er enn eitt sem líka þarf að skoða áfram og hefur verið skoðað og er í sambandi við að taka upp barnatryggingar í staðinn fyrir barnalífeyri. Það mun bitna á örorkulífeyrisþegum og það þarf auðvitað að vinna að því að bæta kjörin, en að lífeyrir sé bundinn við barn (Forseti hringir.) en ekki við stöðu foreldranna.