142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

slysatryggingar almannatrygginga.

6. mál
[17:42]
Horfa

Flm. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessum málum. Þetta er einmitt hluti af því sem þarf að ræða áfram eins og ég sagði. Kannski er það rangt hjá mér að tala um að það bitni á einhverjum, en það er auðvitað augljóst, eins og fram hefur komið hjá hv. þingmanni, að menn hafi svo sem reiknað með því að sá sem býr við örorku þurfi á einhvern hátt að hafa meira fyrir því að sinna börnum og öðru slíku og tekið sé ákveðið tillit til þess.

Hins vegar, eins og hv. þingmaður bendir réttilega á, ætti þetta fyrst og fremst að vera þannig að grunnbætur og bætur örorkulífeyrisþega stæðu undir allri venjulegri framfærslu miðað við starfsgetu. Síðan væri þá bættur eftir aðstæðum tilfallandi kostnaður hvort sem er vegna heilbrigðiskerfisins, tækja eða annars slíks, húsnæðis, sérútbúins húsnæðis, bíla o.s.frv., að því væri þá bætt ofan á eftir einhverju mati á því hverju viðkomandi einstaklingur þyrfti á að halda. Þetta er hluti af því sem þarf að vinna áfram, hv. þingmaður þekkir það mjög vel frá vinnunni í almannatryggingamálunum. Þetta þarf að vinna áfram.

Það sem ég hef áhyggjur af varðandi slysatryggingar og skaðabótalögin er að ég hef það á tilfinningunni að mjög oft sé verið að blekkja fólk, það sé að kaupa sér tryggingar sem eru í raunveruleikanum lítið umfram það sem almannatryggingar bjóða upp á. Það er auðvitað mjög sorglegt ef menn eru að borga há iðgjöld og síðan er það fyrst og fremst almannatryggingakerfið og ríkið sem fólk hefur borgað til með sínum sköttum sem ber svo kostnaðinn ef á reynir. Það þarf því að stilla þetta saman og fyrst og fremst að upplýsa fólk betur. Það kom ágætlega fram í frumvarpi hæstv. ráðherra áðan að það er einmitt eitt af þeim hlutverkum sem stofnanir þurfa að hafa, þ.e. að upplýsa fólk betur um rétt sinn, koma því betur til skila þannig að það geti þá varið sig fyrir sölumönnum sem vilja bæta við réttindum sem jafnvel eru nú þegar inni í almannatryggingakerfinu.