142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

7. mál
[18:17]
Horfa

Flm. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér gerir hv. þm. Pétur H. Blöndal að umræðu sérstaka framfærsluuppbót. Ég þekki það ekki hvort hún hafi hvergi verið rædd en hún endaði með því að koma inn í þingið í frumvarpi sem afgreitt var af þinginu sem lög. Það er rétt að hún kom inn í upphafi í reglugerð eins og ég gerði grein fyrir.

Ég tek alls ekki undir með hv. þingmanni að hún hafi haft slæm áhrif þótt hún hafi haft augljósa galla eins og ég gerði grein fyrir í ræðu minni. Ég hugsa bara til þess með hryllingi ef við hefðum ekki haft þetta þó fyrir þann hóp sem hafði ekki aðrar tekjur til að fleyta sér í gegnum þá erfiðleika sem hafa verið á undanförnum árum. Við fengum auðvitað gagnrýni fyrir að hún hafi ekki dugað því eins og hv. þingmaður kom að fyrr í dag eru breytilegir kostnaðarliðir erfiðir, sérstaklega húsnæðiskostnaðurinn, hann er mjög erfiður og hefur verið. Þess vegna hafa þessar tekjur ekki endilega dugað fyrir því en eftir sem áður hafa þær þó fleytt fólki áfram í gegnum erfiða tíma og verið tryggt að lágmarksframfærslan eða tekjurnar hafa verið hærri en meira að segja atvinnuleysisbætur.

Að hluta til var líka brugðist við með þessu vegna þess að það urðu skerðingar vegna víxlverkana, þegar tekjur hækkuðu hjá lífeyrissjóðum lækkuðu almannatryggingar. Það var líka tekið út í þessu ástandi.

Þegar við tölum um hverjir það eru sem hafa ekki borgað í lífeyrissjóði og eiga ekki réttindi þá nefndi hv. þingmaður sjálfur þá sem eru fatlaðir og hafa verið það til langs tíma. Við erum líka að tala um heimavinnandi og við getum nefnt útlendinga sem koma hingað. Við erum líka að tala um fólk sem einhverra hluta vegna hefur svikist um að borga í lífeyrissjóði. Það kann að vera, þó að lögin hafi verið skýr. En það að breytir ekki því að við getum ekki sagt við fólk sem stendur uppi án tekna að við munum ekki sinna því í almannatryggingakerfinu. Það er vandinn í svona kerfi — eða ekki vandi, það er bara hlutverk okkar að sinna því. En auðvitað þarf að reyna á það að menn fari að lögum og borgi í lífeyrissjóði eins og lög gera ráð fyrir. Það er eitt af stóru verkefnunum að við fáum betri aga í því að fara eftir lögum landsins.