142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

7. mál
[18:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessar upplýsingar, en eftirliti með greiðslum í lífeyrissjóði var ekki komið á fyrr en að mig minnir 1997, um 33 árum eftir að lagaskyldan var sett á um að borga í lífeyrissjóð. Það hefur komið fram að nokkuð stór hópur, um 40 þús. manns borguðu ekki í lífeyrissjóð þó að hann hefði átt að gera það. Þeir standa þá án réttinda í lífeyrissjóði fyrir framan Tryggingastofnun. Framfærsluuppbótin gagnaðist þeim kannski. En þá er það spurningin: Hvað gerðu þeir við 10% sem átti að borga í lífeyrissjóð yfir starfsævina?

Það sem mig langar til að spyrja um er þessi svokallaða einföldun. Fyrir upptöku framfærsluuppbótarinnar voru þrjár tegundir lífeyris. Það var ellilífeyrir, tekjutrygging og heimilisuppbót. Síðan var framfærsluuppbótinni bætt við sem flækti kerfið mjög mikið eins og ég hef nefnt varðandi lífeyrissjóðina. En eftir breytinguna erum við eiginlega með sömu stöðu. Við erum með lífeyri, við erum með þá sem búa einir, það er sérhópur, þeir fá heimilisuppbót, einhvers konar uppbót og síðan erum við með uppbót vegna framfærslu ef á þarf að halda í félagslegri hjálp. Kerfið er því í raun jafn flókið og það var fyrir upptöku framfærsluuppbótarinnar.

Það kerfi sem ég sé fyrir mér felst í því að staða heimilisins sé bætt. Ég vil spyrja hv. þingmann hvernig honum lítist á það. Staða heimilisins sé bætt sem heimilisuppbót og ég veit að unnið hefur verið að því. Síðan séu almannatryggingar bara með einn lífeyri. Þá þarf ekki að koma með heimilisuppbót eða neitt annað, og þessi eini lífeyrir spili með lífeyrissjóðunum með einni skerðingu.