142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg):

Virðulegi forseti. Sumarþing var sett 6. júní sl. og hefur nú verið að störfum í þrjár vikur. Svo vitnað sé í hæstv. forsætisráðherra úr kvöldfréttum RÚV 31. maí sl. þá lýsir hann markmiðum sumarþings þannig, með leyfi forseta, „að gefa til kynna hvert stefnt sé og jafnframt leggja fram mál sem tengjast hagsmunum heimilanna beint, t.d. í skattamálum“.

Nú er ég nýr á þingi en þessa daga sem ég hef setið hér virðist mér ekki mikil pressa á að koma fram málum sem tengjast hagsmunum heimila. Hér er tími þingfunda fjarri því að vera nýttur til fulls, dagskrá öll mjög ómarkviss og ræðst á síðustu stundu og þingmál fæst frá ríkisstjórn komin.

Ef við lítum á samantekt þingmála eru mál frá stjórninni um breytingar á lögum um almannatryggingar og málefni aldraðra sem snúa aðeins að því að afturkalla tvær af sex kjaraskerðingum til lífeyrisþega í kjölfar hruns, breytingar sem gagnast helst þeim sem tekjur hafa, ekki eru til peningar fyrir og fela ekki í sér neina nýja sýn á fyrirkomulag almannatrygginga til framtíðar.

Það má nefna meðferð einkamála, flýtimeðferð gengismála sem er hið besta mál en hins vegar kemur á móti frestun gildistöku laga um neytendavernd sem við ræðum hér á eftir. Áhersla var á mál um RÚV, val stjórnar, afturköllun breytinga á virðisaukaskatti í ferðaþjónustu, tvö tæknileg frumvörp um stjórn fiskveiða og svo auðvitað stóra veiðigjaldamálið. Hagstofa Íslands vildi fá í gegn lög til að tryggja sér leiðir í upplýsingaöflun. Það er ekki komið frá stjórn. Sama má segja um frumvarp um Seðlabanka Íslands, um varúðarreglur og aðgang að upplýsingum, það er heldur ekki komið frá stjórn.

Stóra málið um skuldavanda heimilanna sem rætt verður hér á eftir er í tíu liðum. Það felur einfaldlega í sér að skipa sérfræðingahóp, kanna, skipa verkefnisstjórn, setja á fót sérfræðingahóp til að kanna og sérfræðingahóp til að meta. Það sem gera skal er að afnema stimpilgjöld, veita Hagstofu völd til upplýsingaöflunar, samanber frumvarp um það, og lögfesta flýtimeðferð dómstóla sem komið er fram.

Það er ekki margt bitastætt hér fyrir heimilin og sú stefna sem gefin er til kynna, svo vitnað sé aftur í hæstv. forsætisráðherra, snýr alfarið að hag fyrirtækja og þeirra sem eiga og hafa.