142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að vekja athygli þingheims á frétt um könnun sem Capacent gerði um viðhorf Íslendinga til þess að klára viðræðurnar við ESB. Í ljós kemur að helmingur Íslendinga vill klára viðræðurnar og um 40% vilja slíta þeim. Þá sögðust 9,3% landsmanna vera hlutlaus um málið.

Þetta kemur fram í netkönnun sem Capacent gerði fyrir samtökin Já Ísland á dögunum 13.–24. júní. Þetta er mál sem kemur til með að halda áfram að skipta þjóðinni í tvær fylkingar ef ekki verður úr því skorið hvert á að fara. Þess vegna hvet ég þingheim til þess, sérstaklega þingmenn stjórnarflokkanna, að setja niður dagsetningu um hvenær þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðnanna fari fram. Stjórnarflokkarnir lofuðu þessu fyrir kosningar og þeim hlýtur að vera umhugað um að uppfylla það loforð. Þetta er eitt af þeim loforðum sem einna auðveldast er að uppfylla. Það þarf bara að setja dagsetningu og svo ákveðum við hvernig haldið verður á þessum málum.

Ég vil líka segja í þessu samhengi að ég vara við þeirri áherslu að líta á inngöngu í Evrópusambandið sem inngöngu í einhvers konar sveitaklúbb eða golfklúbb þar sem menn velta fyrir sér hvaða fríðindi fylgi því að ganga þar inn á hverjum tíma, hvort það sé betra núna en það var á síðasta ári eða verði betra seinna. Þetta snýst um meginafstöðu og grundvallarafstöðu í því hvernig menn leysa málin og hvernig menn vilja treysta fullveldið í samstarfi sjálfstæðra þjóða, hvernig sameiginleg vandamál séu best leyst og hvernig vandamál heimsbyggðarinnar séu leyst, hvort það sé gert á vettvangi þjóðríkisins eins — sem ég held að sé ekki og held að sé fullreynt — eða hvort það sé gert í öflugu samstarfi þjóða eins og Evrópusambandsins sem hefur sýnt, sérstaklega til dæmis á vettvangi umhverfismála, að það er besta leiðin til að takast á við sameiginlega vá.