142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

störf þingsins.

[10:55]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Mig langar að vekja athygli á meðferð forsjármála í evrópskum dómskerfum. Þar eru mörg mál í gangi, bæði innan landa og milli landa, og það hefur verið sérstaklega gagnrýnt af þeim sem þar berjast hvernig til dæmis danska kerfið tekur á þeim málum. Einnig hafa gagnrýnisraddir borist frá fulltrúum Evrópuþingsins og gagnrýna þeir meðferð forsjármála í kerfinu og sérstaklega í þeim málum þar sem annað foreldrið er ekki upprunnið þaðan sem málið er sótt. Evrópunefndin telur þetta vera alþjóðlegt vandamál þar sem traðkað sé á réttindum barna og fullorðinna.

Hér er um að ræða mannréttindamál og þau varða okkur öll. Þarna virðast hlutirnir ekki vera í lagi þvert yfir Evrópu og vert gæti verið fyrir okkur að skoða afstöðu okkar í þessum málum.