142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

störf þingsins.

[11:01]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Þau svör sem ég fékk frá hv. þingflokksformanni Framsóknarflokksins áðan voru í sjálfu sér ágæt en þau voru röng vegna þess að þau voru ekki svör við spurningunni sem ég spurði. Ég spurði ákveðinna spurninga en fékk svör við öðrum. Ég spurði ekkert að því hver stefna Framsóknarflokksins væri í listamannalaunum. Ég veit hver hún er. Hún kemur fram í stefnu flokksins eins og hún birtist á heimasíðu hans og var samþykkt á landsfundi. Hún felst í því að ungt fólk með listræna hæfileika eigi að fá laun. Hvernig á nú að meta það? Á að fara með það með sama hætti og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir telur og fullyrðir að farið hafi verið með heiðurslaun listamanna og listamannalaun?

Verður þá farið að tala um samfylkingarbörnin? Verður þá farið að tala um vinstri börnin? Hvers konar ruglumræða er þetta af hálfu framsóknarmanna hér, bæði hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur, sem lætur slíkt frá sér fara, og hv. þingflokksformanns Framsóknarflokksins? Ég hélt satt að segja að hann mundi taka af skarið með þetta og lýsa því yfir, fyrir sína hönd og þingflokks Framsóknarflokksins, að þeir tækju ekki undir þau orð sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir lét frá sér fara um að það væri pólitísk spilling, það væri ráðherraúthlutun á listamannalaunum og það færi eftir því hvernig ríkisstjórn væri skipuð hverju sinni hverjir fengju listamannalaun og hefði ekkert með listræna hæfileika viðkomandi að gera. Það er það sem er sagt hérna, það er það sem er sagt og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hefur ítrekað í ræðum sínum.

Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur, ég ætlast til þess að hæstv. forseti þingsins hlutist til um þetta mál, ræði í það minnsta við viðkomandi þingmann. Mér þykir ekki ólíklegt að óskað verði eftir því að fram fari rannsókn af hálfu þingsins á því hvernig listamannalaunum var úthlutað, að minnsta kosti í þessu tilfelli.