142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

eftirlit bandarískra stjórnvalda með íslenskum borgurum.

[11:29]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að það liggur fyrir frá hæstv. innanríkisráðherra að verið sé að ræða stöðu þessara mála. Mig langar aðeins að bæta við þá umræðu sem hér hefur orðið um baráttuna fyrir þessu sem mannréttindamáli og vörnum hvað varðar friðhelgi einkalífsins, sem er varin í stjórnarskrá. Það er mjög mikilvægt að við förum yfir það — og ég hvet ráðherra til að taka það til skoðunar — hvaða upplýsinga er aflað á Íslandi í dag, hvernig er haldið utan um það og hverjir eru að safna upplýsingum.

Við verðum þar að svara fyrir okkar eigin stjórnvöld því að það er augljóst að lögreglan er að safna einhverjum upplýsingum. Við vitum að lögreglan notar Facebook, að vísu ekki með kerfisbundnum hætti, eða með því að nota kerfið, heldur hreinlega með því að fylgjast með dagskrá og auglýsingum. Hið sama á við um félagsmálayfirvöld, þegar menn eru að skoða sambýlisform og annað, vilja athuga hvort fólk sem er í sambúð er skráð sem einstaklingar í bótakerfinu o.s.frv. Upp hafa komið hugmyndir um að keyra inn tölvukerfi til að fylgjast betur með hvort fólk er að svíkja reglur og lög. Þetta er alls staðar þar sem verið er að leita eftir því að nota þessa nýju tækni til að fylgjast með okkur. Það er gert með lymskulegum hætti, jafnvel þannig að þegar ég opna ákveðnar síður — sem ég hafði svo sem ekkert áttað mig á enda ekki mjög tæknisinnaður — er verið að skrá neyslu mína. Þar af leiðandi fæ ég upp á mínar síður auglýsingar sem höfða til mín miðað við það hvernig ég hef notað tölvuna mína.

Þetta er umhverfið sem við búum við og við þurfum að þora að taka þessa umræðu. Þetta er notað í viðskiptatilgangi, þetta er notað í pólitískum tilgangi, þetta er notað í hernaðartilgangi. Hvernig er þessu háttað hér? Það er það sem skiptir mestu máli. En fyrst og síðast, af því að þessi umræða snýst um erlenda njósnastarfsemi, finnst mér að íslensk yfirvöld eigi að taka frumkvæðið og að minnsta kosti beina spurningu til þessara erlendu aðila: Hvað eruð þið að gera með Íslendinga í þessum grunnum? Eru þeir þar? Hvaða upplýsinga er verið að afla og í hvaða tilgangi? Þannig að við höfum að minnsta kosti gert tilraunir til að fá slíkar upplýsingar.