142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

eftirlit bandarískra stjórnvalda með íslenskum borgurum.

[11:36]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég ítreka þakkir til hv. málshefjanda og hv. þingmanna fyrir að taka þetta mál hér upp. Ég tek undir með þeim þingmönnum sem rætt hafa um það. Það er aðalögunin í þessu öllu saman að við fáum áfram tækifæri til að nýta tæknina og þá kosti sem hún býður upp á en eigum um leið að geta treyst því að staðinn sé vörður um þessi réttindi okkar. Ég held að það sé sameiginlegt markmið okkar allra. Ég treysti því að við höfum öll mikinn metnað í því.

Umræðan um persónuvernd á netinu, eins og við þekkjum öll, er ekki ný af nálinni. Á vettvangi Evrópusambandsins og innan Evrópska efnahagssvæðisins er nú unnið að því sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir nefndi hér áðan að tryggja netöryggi betur. Það á ekki bara við um stöðuna hér á landi heldur líka annars staðar. Nú er á vettvangi Evrópusambandsins og innan Evrópska efnahagssvæðisins unnið að þróun persónuverndarlöggjafar. Íslensk stjórnvöld taka þátt í því en við erum skuldbundin af þeim samningum, sérstaklega er lýtur að EES-samningnum, til að samræma persónuverndarlöggjöf okkar evrópskum reglum, þar með talið að mæta nýjum ógnum sem ekki voru fyrir hendi er núgildandi persónuverndarlög — sem sannarlega þarf, eins og hv. þingmaður nefndi, að skoða með hliðsjón af ört breytilegri tækni — voru sett hér á landi eða í Evrópu.

Ég ítreka líka, vegna umræðunnar hér, sem nokkrir hv. þingmenn hafa komið inn á, að ráðuneytið og ríkisstjórnin er meðvituð um að bæta þarf þessa hluti og vinna að þeim. Ég greindi frá því áðan að í tíð síðustu ríkisstjórnar var grunnur lagður að skipun samráðshóps innan stjórnkerfisins um eflingu netöryggis. Ekki stendur til að breyta þeim áformum heldur halda áfram með það af fullri alvöru.

Hvað varðar það tiltekna mál sem er ástæðan fyrir umræðunni í dag ítreka ég að íslensk stjórnvöld munu að sjálfsögðu fylgjast vel með, bíða eftir svörunum sem bandarísk og bresk yfirvöld munu gefa á næstu dögum til Evrópusambandsins, ég ítreka það líka að íslensk stjórnvöld taka þessa umræðu alvarlega. Umræðan er tekin alvarlega og við munum fylgjast með því hver svörin verða og fylgja því eftir. Ef talin er ástæða til munum við fylgja því eftir til að tryggja að meginreglur íslenskra laga um frelsi, mannréttindi og persónuvernd séu tryggð. (Forseti hringir.) Komi það upp að leita þurfi skýringa á því hjá Bandaríkjamönnum og Bretum verður það að sjálfsögðu gert.

Herra forseti. Ég ítreka þakkir fyrir umræðuna og líka þakklæti til hv. þingmanna um þá samstöðu sem er um það hér í þessum sal að það öryggi sem þarf að vera á þessum nútímavefjum sem við notum og nútímatækni sé tryggt.