142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[11:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar um tillögu til þingsályktunar um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi. Nánar tiltekið er hér um að ræða stjórnartillögu, þskj. 9, lagt fram af hæstv. forsætisráðherra 11. júní 2013.

Í þingsályktunartillögunni er lögð til aðgerðaáætlun í tíu liðum með það að markmiði að taka á skuldavanda heimila á Íslandi, sem er til kominn af hinni ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkun verðtryggðra húsnæðislána sem leiddi af hruni fjármálakerfisins. Í athugasemdum með tillögunni er gerð nánari grein fyrir liðunum tíu og tilgangi hvers þeirra í áætluninni. Grunnviðmiðið er að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007–2010. Þá er henni ætlað að tryggja stöðugleika og gagnsæi á húsnæðislánamarkaði til framtíðar.

Tveir liðir af tíu í fyrirhuguðum aðgerðum hafa þegar verið lagðir fram á Alþingi í formi lagafrumvarpa. Liður 5, frumvarp hæstv. innanríkisráðherra um breytingu á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, hefur þegar verið samþykkt sem lög. Hitt er liður 10, frumvarp hæstv. forsætisráðherra um Hagstofu Íslands og er til umfjöllunar hjá hv. allsherjar- og menntamálanefnd.

Í áætluninni er annars vegar um að ræða beinar aðgerðir sem kveða á um framlagningu frumvarpa og hins vegar tímasettar athuganir þar sem tekið er fram hver ber ábyrgð á málaflokknum. Þær miða að því að skila sér í aðgerðum í kjölfar greininga sérfræðinga á þeim leiðum sem eru til þess fallnar að ná því markmiði að leiðrétta forsendubrestinn óháð lántökutíma með áherslu á jafnræði og skilvirkni úrræða.

Nefndin hefur nú fjallað ítarlega um málið og lagði meiri hluti hennar áherslu á að fjalla almennt um efni tillögunnar, þ.e. heildrænt, en fara ekki ítarlega í einstaka liði hennar, enda gengur tillagan út á umboð til að hrinda af stað verkáætlun og því liggur nákvæm útfærsla ekki fyrir eðli málsins samkvæmt. Þó að ég tali hér um meiri hluta vil ég taka fram að sátt og samvinna einkenndi störf nefndarinnar í þessu máli.

Nefndin fékk á sinn fund fjölmarga hagsmunaaðila og þá barst nefndinni fjöldi umsagna. Umsagnirnar voru alls 15 og heimsóttu okkur 28 gestir.

Þá varðar málið aðgerðir á málefnasviði annarra fastanefnda og óskaði nefndin eftir umsögn frá hv. nefndum, allsherjar- og menntamálanefnd og velferðarnefnd og eru umsagnir þeirra fylgiskjöl með nefndarálitinu. Upptalningu umsagnaraðila og gesta fjölmargra má sjá í nefndarálitinu á þskj. 47.

Það er mat meiri hlutans að álitsgjafir og ábendingar þessara aðila hafi verið mjög gagnlegar og nýst nefndinni vel við afgreiðslu málsins og munu örugglega nýtast vel í þeirri vinnu sem fram undan er. Í umsögnum hagsmunaaðilanna komu fram sjónarmið og álitaefni sem vert er og þarft að líta til við úrvinnslu verkáætlunarinnar. Meiri hlutinn telur það til marks um jákvæðni í garð tillögunnar að umsagnaraðilar og gestir nefndarinnar lýstu sig flestir að fyrra bragði reiðubúna til að taka þátt í að leysa þennan aðsteðjandi vanda vegna hækkunar húsnæðislána sem rekja má til forsendubrests sem varð með hruni fjármálakerfisins. Fram kom að töluverðrar óþreyju er farið að gæta meðal lántakenda og tekur meiri hlutinn undir þau sjónarmið og áréttar mikilvægi þess að tillagan nái fram að ganga.

Fjöldi heimila í landinu treystir á að fá úrlausn sinna mála á næstu missirum og hafa ákveðnar væntingar skapast sem verður að koma til móts við. Meiri hlutinn áréttar að í þingsályktunartillögunni eru dregnar upp útlínur þess hvernig ríkisstjórnin hyggst leysa brýnasta málið sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir í dag, skuldavanda heimilanna. Meiri hlutinn gerir og ráð fyrir að hver liður í áætluninni muni skila sér sem frumvarp eða tillögur þegar starfshópar og nefndir hafa lokið sínum störfum og því sé ekki á þessu stigi tímabært að fara ítarlega í hvern lið fyrir sig. Tækifæri mun gefast til slíkrar umfjöllunar sem og náins samstarfs og aðkomu hagsmunaaðila að hverju verkefni fyrir sig þegar þingmál vegna skuldavandans berast samkvæmt áætluninni.

Sú skoðun kom og skýrt fram í máli hagsmunaaðilanna þar sem þeir töldu efnislega erfitt að taka afstöðu til einstakra atriða þar sem mörg þeirra bíða nánari útfærslu. Í því ljósi væri erfitt að veita nákvæmar umsagnir um tillögurnar umfram það að styðja allar góðar aðgerðir til handa heimilunum.

Meiri hlutinn telur rétt að koma inn á nokkur þeirra sjónarmiða sem fram komu í umfjöllun málsins. Fram kom að ýmsir aðrir en skuldarar verðtryggðra íbúðalána eiga við fjárhagslega erfiðleika að glíma sem rekja má til þess óvænta forsendubrests sem varð vegna hruns bankakerfisins á haustmánuðum 2008. Í umsögn hv. velferðarnefndar um málið er til að mynda vakin athygli á því að helsti skulda- og greiðsluvandi einstaklinga er vegna bílalána og annarra neyslulána með þyngri greiðslubyrði en verðtryggð húsnæðislán. Því til stuðnings var vísað í greinargerð um fjárhagsstöðu heimilanna frá apríl 2013 sem unnin var af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, forsætisráðuneyti, innanríkisráðuneyti og velferðarráðuneyti.

Í sömu greinargerð kemur og fram að skuldir við stóru viðskiptabankana þrjá fara minnkandi. Þá veltu gestir nefndarinnar upp þeirri spurningu hvort ekki væri rétt að fram færi ítarleg þarfagreining til að hægt verði að leggja mat á hvar þörfin á eftirgjöf skulda er mest.

Meiri hlutinn áréttar að í tillögunni liggur fyrir ákveðin aðgerðaáætlun sem ætlað er að taka á skuldavanda heimila sem sé til kominn vegna ófyrirsjáanlegrar höfuðstólshækkunar verðtryggðra húsnæðislána og nær hún því samkvæmt efni sínu og markmiði ekki til annarra lána.

Meiri hlutinn leggur áherslu á mikilvægi þess þegar farið er í almennar aðgerðir af því tagi sem lýst er í tillögunni að jafnræði verði haft að leiðarljósi í hvívetna en í því felst að einstaklingar í sambærilegri stöðu fái sambærilega lausn sinna mála. Er þingsályktunartillögunni beint að almennri leiðréttingu skulda heimila vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra húsnæðislána.

Hjá fjölmörgum, m.a. í nefndaráliti hv. velferðarnefndar, kom fram að mikil vinna hefur nú þegar farið fram á mörgum þessara sviða og fjölmargir starfshópar hefðu verið skipaðir og skilað af sér skýrslum. Meiri hlutinn hvetur til þess að byggt verði á þeirri vinnu sem þegar liggur fyrir.

Fyrir nefndinni kom og fram sjónarmið þess efnis að niðurfærsla lána væri dýr og óskilvirk leið og að almennar aðgerðir væru ekki heppilegar til að aðstoða þá sem eru í mestum skulda- og greiðsluvanda. Þá komu fram áhyggjur af áhrifum aðgerðanna á efnahagslífið með aukinni einkaneyslu sem stuðlaði að veikara gengi og vaxandi verðbólgu og varað var við því að skuldsetja ríkissjóð til að leiðrétta skuldir heimila. Þá var ítrekað að mikilvægt væri að stíga varlega til jarðar í útfærslu á ákveðnum liðum til að skapa jákvæða hvata fyrir fólk til að standa undir skuldbindingum sínum svo sem þegar kæmi að útfærslu á lyklafrumvarpi og heimildum í tengslum við gjaldþrot.

Meiri hlutinn bendir á að þegar eru til staðar aðgerðir fyrir þá sem eru í mestum vanda en áréttar mikilvægi þess að gripið sé til almennra aðgerða til handa heimilum í landinu og leggur áherslu á mikilvægi þess að kostnaðargreining verði höfð að leiðarljósi við útfærslu þeirra leiða sem hér eru kynntar. Að auki telur meiri hlutinn mikilvægt að hafa hagræn sjónarmið í huga er varða fjármálastöðugleikamarkmið Seðlabanka Íslands og ríkissjóð almennt. Meiri hlutinn telur ekki ástæðu til að óttast verðbólguskot þótt skuldir heimila verði lækkaðar, enda verði þá ekki greiddar út neinar fjárhæðir. Meiri hlutinn leggur áherslu á að aðgerðaáætlunin verði unnin hratt og örugglega þar sem brýnt er að fá úrlausn í skuldavanda heimilanna eins fljótt og kostur er og áréttar mikilvægi þess að Alþingi fái að fylgjast með framgangi vinnunnar, þeirra starfshópa sem tilgreindir eru og að verkefnið verði unnið þannig að sem víðtækust sátt verði um útfærslu á aðgerðunum.

Meiri hlutinn leggur áherslu á að með tillögunni er lagt til að Alþingi lýsi yfir stuðningi við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar til að taka á skuldavanda heimilanna og telur afar brýnt í því efni að Alþingi taki afstöðu í málinu og sýni á þann hátt ótvíræðan vilja sinn til að vinna með framkvæmdarvaldinu að farsælli lausn.

Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt. Undir það skrifa eftirtaldir hv. þingmenn: Frosti Sigurjónsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Pétur H. Blöndal, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Willum Þór Þórsson og Vilhjálmur Bjarnason.