142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[11:51]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar sem samanstendur af mér og hv. þm. Edward H. Huijbens, sem sagt fulltrúum Bjartrar framtíðar og fulltrúum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í efnahags- og viðskiptanefnd.

Við erum ekki langorðir í umsögn okkar og áliti enda komst maður fljótt að þeirri niðurstöðu eftir að hafa kynnt sér þessa þingsályktunartillögu að um hana er í raun og veru mjög lítið að segja á þessari stundu. Hér er ríkisstjórnin að fara fram á að Alþingi samþykki að hún stofni starfshópa um stefnumarkmið sín. Við teljum ástæðu til að benda á það í upphafi nefndarálits okkar að að sjálfsögðu gerum við engar athugasemdir við að ríkisstjórnin stofni starfshópa og teljum vel til fundið að hún kanni kosti og galla þeirra kosningaloforða sem stjórnarflokkarnir gáfu. Það voru ansi stór loforð sem voru gefin í kosningabaráttunni og satt að segja mjög mikilvægt að kanna kosti þeirra og galla. Út af fyrir sig gerum við engar athugasemdir við að ríkisstjórnin stofni starfshópa, en við erum líka með þó nokkur varnaðarorð.

Við viljum að sjálfsögðu koma að þessari vinnu með uppbyggilegum hætti, en það eru nokkur sjónarmið sem ég held að sé mjög mikilvægt að höfð séu að leiðarljósi. Kosningaloforðin sem voru gefin varðandi skuldamál heimilanna benda til að þetta sé æðikostnaðarsamt og það var aldrei útfært í kosningabaráttunni hvernig ætti að fjármagna til dæmis almennar afskriftir húsnæðislána. Það er náttúrlega heldur ekkert útfært í þessari svokölluðu aðgerðaáætlun heldur á að freista þess að útfæra hana.

Varnaðarorðin sem við viljum leggja áherslu á af þessu tilefni varða auðvitað stöðu ríkissjóðs og skuldastöðu ríkissjóðs og að ekki verði farið í aðgerðir sem sliga ríkissjóð og leiða til þess að ekki verði hægt að greiða niður skuldir ríkissjóðs jafn hratt og áformað er eða til þess að skuldir ríkissjóðs vaxi með tilheyrandi byrðum á komandi kynslóðir.

Það er einfaldlega alls ekki ljóst á þessari stundu hvort aðgerðirnar muni hafa í för með sér að staða ríkisfjármála versni en það er margt sem bendir til þess þannig að þetta er mjög mikilvægt. Við leggjum þunga áherslu á að það sé haft alveg kirfilega að leiðarljósi að gera ekki stöðu ríkisfjármála verri.

Við segjum að aðgerðirnar verði líka að tryggja jöfnuð í samfélaginu. Það segjum við vegna þess að greining Seðlabanka Íslands, og það kom líka ágætlega fram í umsögn Seðlabanka Íslands af þessu tilefni, bendir til að almenn skuldaniðurfelling, flatt á línuna til allra húsnæðislántakenda í landinu, muni fyrst og fremst færa þeim fé sem hafa mjög mikið milli handanna. Stóreignafólk skuldar mest, aðallega stóreignafólk á höfuðborgarsvæðinu, og það glímir einna helst við svokallaðan skuldavanda samkvæmt greiningu Seðlabankans en í mjög litlu mæli við greiðsluvanda. Stóreignafólk skuldar mikið og ef það á að fella niður lán hlutfallslega jafnt á alla skuldara mun þetta fólk fá mest.

Það er þá ekki aðgerð sem mundi stuðla að jöfnuði. Hún mundi færa mikið fé til fólks sem hefur mikið fé og fólk sem býr við greiðsluvanda, getur ekki greitt af láni sínu, fengi ekki endilega mikið í gegnum þessa almennu skuldaniðurfellingu, segja tölur Seðlabankans. Það er fólk sem yrði eftir sem áður í greiðsluvanda þótt það fengi til að mynda 20% niðurfellingu á höfuðstól lána sinna. Þetta er áhyggjuefni og við hvetjum til þess að horft verði til þeirra sjónarmiða Seðlabankans þegar farið verður í að útfæra þessar aðgerðir.

Við teljum líka, 1. minni hluti, að ákaflega mikilvægt sé að gæta að efnahagslegum stöðugleika í aðgerðunum. Ef það stendur til að færa stórum hópi Íslendinga mjög mikið fé með einni aðgerð getur það augljóslega skapað þenslu í þjóðfélaginu sem eykur viðskiptahalla, sem gerir afnám gjaldeyrishafta erfiðari.

Eins og kom fram í framsögu framsögumanns meirihlutaálitsins er út af fyrir sig auðvitað ekki verið að færa fólki beint fé en það er verið að auka veðrými fólks sem getur leitt til þess að það fólk tekur lán, nýtir svigrúm í veðrými sínu og þá getur það einfaldlega orðið þensluskapandi. Við höfum séð það gerast í íslensku samfélagi. Þetta er nákvæmlega það sem gerðist í bólunni þegar bankarnir fóru inn á lánamarkaðinn og buðu hagstæðari lán og þegar veðrými var aukið upp í 90% af húsnæðislánum, þá fór stór hluti þjóðarinnar á lánafyllirí. Það verður auðvitað að gæta þess að svona stóra aðgerð, ef farið verður út í hana, leiði ekki til sömu niðurstöðu.

Aðgerðirnar verða náttúrlega að samrýmast markmiðinu um afnám gjaldeyrishafta, segjum við. Ég hef áður tæpt á því að það kunni að vera að þau samrýmist ekki þeim áformum ef þau eru neysluhvetjandi og ef þau leiða til meiri viðskiptahalla. Eins er líka ákveðin þversögn, finnst mér, að baki þessari hugmyndafræði. Mér virðist eins og mögulega eigi að fjármagna þessa skuldaniðurfellingu með samningum við erlenda kröfuhafa og þá stendur til, ef ég skil það rétt, að reyna að nota gjaldeyrishöftin sem einhvers konar þvingun á samninga. Ef þetta er hugmyndafræðin sé ég ekki alveg að það samrýmist afnámi gjaldeyrishafta á sama tíma. Þetta er þversögn sem mér finnst óútskýrð.

Fyrsti minni hluti leggur mikla áherslu á að fyrst verið er að fara í þá vinnu að stofna starfshópa sé ýmislegt annað skoðað. Við bendum á mikilvægi þess að skoða stöðu leigjenda. Þeir hafa margir hverjir búið við verðtryggða leigusamninga þannig að ef talað er um forsendubrest á verðtryggðum lánum hefur forsendubresturinn líka orðið á verðtryggðum leigusamningum. Það er mjög mikilvægt að skoða stöðu þessa hóps. Það eru auðvitað ekki öll heimili lántakendur húsnæðislána og það verður að horfa til þess í þessum aðgerðum. Við hvetjum til þess að skoðuð verði sérstaklega staða fólks sem hefur litla sem enga greiðslugetu því að eins og ég sagði áðan er almenn skuldaniðurfelling ekki til þess fallin að hjálpa þeim hópi. Það hefur til dæmis komið fram í vinnu umboðsmanns skuldara að umtalsverður hópur hefur einfaldlega ekki efni á að greiða leigu, hefur ekki efni á að greiða nokkuð af húsnæðislánum, fólk með litla og jafnvel neikvæða greiðslugetu. Mér finnst fátt í þessari aðgerðaáætlun sem kemur til móts við þann hóp.

Við leggjum áherslu á að aðgerðirnar leiði ekki til þess að ungu fólki eða efnalitlu verði gert erfiðara fyrir á húsnæðismarkaði með færri valmöguleikum í lánasamningum. Það þarf að ræða markmið um að banna eða afnema verðtryggingu. Ef við búum í verðbólgusamfélagi, sem eru sterkar líkur á að við munum búa í áfram, og búum við há vaxtakjör eru verðtryggð lán valmöguleiki á lánamarkaði sem gera fólki auðveldara fyrir að standa í skilum. Þetta er fyrirkomulag sem hét áður verðbótaþáttur vaxta af því að vextir urðu mjög háir. Þegar verðbólga varð mjög há var greiðslubyrðinni einfaldlega skellt aftan við höfuðstólinn. Ef það stendur ekki til að glíma við verðbólguna, glíma við vaxtastigið á Íslandi held ég að verðtryggð lán verði að vera til sem valmöguleiki á lánamarkaði. Við í 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar hvetjum til varkárni í þeim efnum og að við spyrjum okkur spurninga áður en við förum í það í einhverjum gassagangi að banna verðtryggð lán eða afnema þau. Það er verðbólgan sem er óvinurinn og við þurfum að glíma við hana. Það er í sjálfu sér ekkert í þessari aðgerðaáætlun sem tekur á því heldur þvert á móti, að mínu viti.

Við segjum í nefndaráliti okkar að áform ríkisstjórnarinnar og aðgerðir í skuldavanda heimila eru um margt óljós og öll óvissa er slæm. Á margan hátt finnst mér það skiljanlegt vegna þess að í kosningabaráttunni var þetta óljóst. Menn reyndu að tala skýrt en fjármögnunin á þessum áformum um skuldaleiðréttingu var alltaf óskýr. Það kemur mér í sjálfu sér ekkert á óvart þótt hún sé enn þá óskýr, en það er samt eitt og annað þarna sem ég hefði talið að hægt væri að hafa skýrar, t.d. afnám stimpilgjalda. Það er búið að ræða afnám stimpilgjalda á húsnæðislánum í fjöldamörg ár og ég sé ekki betur og heyri ekki betur en það sé mjög mikill samhljómur hér á þingi um að fara í að afnema stimpilgjöld á húsnæðislánum.

Ríkisstjórnin kom fram með það sem sitt fyrsta mál á sumarþinginu að lækka virðisaukaskatt á gistiþjónustu. Það vafðist ekki fyrir ríkisstjórninni og þar var engin knýjandi þörf og það var ekki skattaleikur sem var neinn samhljómur um. Miðað við áhersluna á húsnæðismál, skuldamál heimilanna hefði ég talið að það hefði farið miklu betur á því, fyrst menn voru á þeim buxunum að lækka gjöld, að afnema stimpilgjöldin á húsnæðislánum. Ég held að það hefði verið svipaður kostnaður og hvað varðar gistináttaskattinn. Þetta vekur undrun mína.

Þetta er líka dæmi um óheppilega óvissu sem háir fasteignamarkaðinum um þessar mundir samkvæmt reglunni. Ef fólk býst við því eða getur búist við því að á komandi mánuðum verði stimpilgjöld afnumin bíður fólk auðvitað með viðskipti á fasteignamarkaði. Þetta eru verulegar fjárhæðir sem skipta fólk máli þannig að hér hefði til dæmis átt að vinna hratt og vel og mikið undrunarefni af hverju það er ekki gert.

Við fögnum því að það eigi að vinna að húsnæðisstefnu og leggjum mikla áherslu á að það sé gert, húsnæðisstefnu til framtíðar með aðkomu allra flokka og fulltrúum stéttarfélaganna. Það er til dæmis verið að vinna húsnæðisstefnu innan Reykjavíkurborgar og það fer vel á því að vinna slíka húsnæðisstefnu á vegum ríkisins.

Að lokum leggjum við áherslu á að farið hefur fram mikil vinna um skuldamál heimilanna á undanförnum árum, gríðarlega mikil vinna. Fjölmargar skýrslur hafa verið skrifaðar og mjög mikið samráð haft, t.d. um húsnæðisstefnu. Greining hefur farið fram á þessum vanda, fjölmargar aðgerðir hafa átt sér stað, miklar niðurfellingar á skuldum, sérstakar vaxtabætur. Sett var á stofn sérstakt embætti, umboðsmaður skuldara. Það voru loksins samin greiðsluaðlögunarlög á Íslandi. Ég hvet ríkisstjórnina til að byggja á allri þeirri vinnu og við hvetjum til þess, fulltrúar 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar að öll þessi gögn verði nýtt og byggt á þeim árangri sem þó hefur náðst. Við gerum ekki lítið úr því, alls ekki, að það þurfi að gera meira. Þetta eru mjög brýn málefni, einhver þau brýnustu sem við glímum við í pólitík samtímans, endurskipulagning á lánum heimilanna, og við fulltrúar Bjartrar framtíðar og fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs viljum að sjálfsögðu koma að þessu starfi á uppbyggilegan hátt og lausn þessara mikilvægu mála, eins og við tökum fram í nefndarálitinu.

Að því sögðu setjum við okkur alls ekki upp á móti því að stjórnarflokkarnir freisti þess að útfæra kosningaloforð sín og það er full ástæða til að bíða spenntur eftir útfærslunum og að sjálfsögðu munum við ræða þær í þaula þegar þær koma fram.