142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[12:07]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil alls ekki gera lítið úr þeirri vinnu sem síðasta ríkisstjórn fór í á liðnu kjörtímabili varðandi aðgerðir í skuldamálum heimilanna en ljóst er að betur má ef duga skal, fara verður í aðgerðir sem duga. Þess vegna förum við í þessa vinnu, hún tekur tíma og skoða þarf ýmsar hliðar til að tryggja réttmæti þeirra aðgerða sem við ætlum að fara í.

Ég vil benda á í því samhengi og í þeirri umræðu sem verið hefur um þessi mál að fólk er ekki að biðja um neinar gjafir. Það er ekki að biðja um neitt fé sem eigi að færa því, það er ekki að biðja um neina ölmusu, heldur er verið að tala um að leiðrétta forsendubrest hjá því fólki sem varð fyrir eignaskerðingu. Um er að ræða hóp fólks sem lagði helling af eigin fé í húsnæði sitt, það ætlaði að nýta þennan eignarhluta til efri ára. Það er ekki bara ungt fólk sem er í slæmum málum heldur veit ég um fjölda marga aðra sem áttu hluta í eignum sínum og ætluðu sér að nýta þann eignarhluta til að geta haft það betra á efri árum. En margt af því fólki er í slæmum málum í dag. Við verðum að fara í aðgerðir sem virka og þess vegna mun vinnan taka töluverðan tíma. Við verðum að gera eitthvað í málunum því að fjölskyldur eiga erfitt og þetta hefur haft mjög slæm áhrif á fjölskyldurnar í landinu okkar þar sem orðið hefur sundrung og erfiðleikar hafa skapast. Ég vildi bara koma því á framfæri.