142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[13:31]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti 2. minni hluta um tillögu til þingsályktunar um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi. Fyrst er þá til að taka að efni þingsályktunartillögunnar stendur ekki undir því heiti sem tillagan sjálf ber því að í tillögunni sjálfri er ekki að finna neinar aðgerðir heldur yfirlit um atriði sem kanna skuli.

Kosningaloforð núverandi stjórnarflokkanna voru skýr og svo dýr að slíkt á sér ekkert fordæmi í íslenskri stjórnmálasögu. Þau loforð hafa skapað gífurlegar væntingar í samfélaginu um útdeilingu fjár og það er mikill ábyrgðarhluti að bregðast þeim væntingum og það hik sem er á efndum stjórnarflokkanna getur haft víðtækar neikvæðar afleiðingar.

Óvissa er að allra mati versti óvinurinn og óskýr rannsóknaráætlun, eins og hér er um að ræða, um forsendur dýrustu kosningaloforðanna skapar mikla og skaðlega óvissu. Við sjáum þess nú þegar stað á fasteignamarkaði þar sem fólk heldur að sér höndum vegna óvissu um hvað það á í reynd í húsum sínum. Við sjáum það líka vegna þess að ríkisstjórnin treystir sér jafnvel ekki til að koma fram með einföldustu þætti þeirra aðgerða sem hún þó ýjar að að komi til greina, svo sem eins og frumvarp um afnám stimpilgjalds sem ætti að vera einfalt úrlausnarefni. Allt veldur þetta því óvissu sem er skaðleg fyrir efnahagslífið og hún er skaðleg fyrir heimilin í landinu.

Það er sem sagt ljóst núna þegar þessi þingsályktunartillaga er skoðuð að fyrirheit úr kosningabaráttunni um að aðgerðir kæmu til framkvæmda strax í sumar munu ekki ganga eftir. En það er líka alveg ljóst að sú rannsóknarvinna sem þarf auðvitað að liggja til grundvallar árangursríkum aðgerðum í jafn stóru máli og hér um ræðir er alveg óunnin. Þetta er því fyrst og fremst rannsóknaráætlun.

Ég tel mikilvægt að ríkisstjórnin setji í orð fyrirheit um að byggja aðgerðir á vönduðum undirbúningi, en það bendir ekkert til að raunveruleg heildarsýn á skuldavanda heimila sé fyrir hendi af hálfu ríkisstjórnarinnar. Við í Samfylkingunni teljum óhjákvæmilegt að leggja fram nokkrar breytingartillögur í þessu máli til að herða á orðalagi varðandi þau verkefni sem mestu skipta og koma atriðum sérstaklega á framfæri. Að okkar áliti er mikilvægt að kveða skýrar að orði um það umboð sem er veitt varðandi afnám verðtryggingar og lækkun skulda þannig að ekki leiki vafi á og að líka sé mikilvægt að gefa stjórnarmeirihlutanum tækifæri á að gefa skýr fyrirmæli um að fyrir þingið skuli koma frumvarp um afnám verðtryggingar og útfærð áætlun um 20% lækkun lána.

Til viðbótar leggjum við svo til að stjórnvöld ljúki nauðsynlegri vinnu til að uppfylla fyrir sitt leyti úrvinnslu þess samkomulags sem liggur fyrir um lausn varðandi lánsveð, sem er alvarlegur vandi sem á eftir að leiða til lykta. Jafnframt legg ég fram breytingartillögu um að hverjum þingflokki verði heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa í nefndir og starfshópa sem skipaðir verði á grundvelli þingsályktunarinnar.

Það er nefnilega athugunarefni að í tillögunni, eins og hún er sett fram, er sú þverpólitíska samvinnuhefð Alþingis sem við komum á haustið 2009 rofin því að ekki er gert ráð fyrir því að stjórnarandstaðan komi að úrvinnslu skuldamálanna. Það er mikill galli. Ég held satt að segja mesti ávinningurinn af vinnunni á síðasta kjörtímabili og verklaginu þá hafi verið að ná að tryggja þessa þverpólitísku samvinnu um vinnu við skuldamál heimilanna. Það er líka rétt að hafa í huga að í tíð síðustu ríkisstjórnar fór fram mikil vinna á því sviði og það er fagnaðarefni að meiri hluti nefndarinnar skuli viðurkenna það og vitna beinlínis í þá vinnu í meirihlutaálitinu og einnig í ræðu hv. þm. Willums Þórs Þórssonar áðan sem var algjörlega til fyrirmyndar.

Í nefndarálitinu fjalla ég nokkuð um bakgrunn skuldavandans og verklagið og verkefnin sem þegar hefur verið ráðist í á undanförnum árum. Í framhaldi af því er síðan umfjöllun í álitinu um hinn hugmyndalega grundvöll sem ríkisstjórnin byggir á varðandi loforðin um almenna leiðréttingu skulda heimilanna, þ.e. forsendubrest og verðbólguskot. Aðeins hefur verið rætt fyrr í umræðunni um forsendubrestinn og hugmyndina um forsendubrest og að hún sé í reynd forsenda þess að það þurfi nýja tegund aðgerða við í skuldavanda heimilanna. Vandinn við þá röksemd er að forsendubrestur hefur ekki verið viðurkenndur sem lögfræðilega viðurkennt hugtak á undanförnum árum. Ítrekað hefur verið látið á það reyna fyrir dómstólum að áföllin í hruninu hafi falið í sér forsendubrest en því hefur verið hafnað jafn oft af Hæstarétti. Það skapar auðvitað vandamál ef menn leggja síðan hugmyndina um forsendubrest til grundvallar aðgerðum í skuldavanda heimilanna og að það eigi að flytja fjármuni til þeirra sem hafa orðið fyrir forsendubresti ef ekki er um að ræða hugtak sem stenst fyrir dómstólum. Þá lenda menn auðvitað í miklum ógöngum gagnvart stjórnarskránni og eignarréttarákvæðum hennar og ef menn ætla að byggja almennar afskriftir á að mæta forsendubresti verður þessi hugmynd um forsendubrest að vera annað en sú óljósa pólitíska hugmynd sem hún er í dag. Þess vegna geld ég varhuga við því að yfir höfuð sé mögulegt, miðað við túlkun Hæstaréttar á hugmyndinni um forsendubrestinn á undanförnum árum, að byggja aðgerðir af þeim toga sem ríkisstjórnin gerir ráð fyrir á þeirri hugmynd.

Hugmyndin um að leiðrétta eigi verðbólguskot er ekki síður nýstárleg. Hún kemur fram í stjórnarsáttmálanum og hún kemur fram í þingsályktunartillögunni. Þetta er þeim mun athyglisverðara þar sem Ísland hefur meiri reynslu af verðbólgu en nokkur önnur þjóð í Vesturheimi og tjón af völdum verðbólgu hefur verið svo algengt og almennt að talið hefur verið algjörlega ómögulegt hingað til að bæta tjón vegna verðbólgu. Hún hefur auðvitað valdið miklum eignatilfærslum, verðbólguskot hafa valdið tilfærslum og tjóni í áranna rás. Síðast 2006, í kjölfar míníkrísunnar í febrúar 2006, þegar verðbólga fór yfir 8% og vanskil byrjuðu að hrannast upp í kerfinu. Það var ekki hrun fjármálakerfisins 2008 sem markar upphaf vanskilahrinunnar heldur tvöfaldast vanskilin á árinu 2006. Með sama hætti má nefna verðbólguhrinuna eftir fall krónunnar upp úr aldamótum og með sama hætti verðbólgugusuna á tíunda áratugnum og auðvitað hið mikla misgengi í verðbólgugosinu mikla upp úr 1983.

Í öllum þeim tilvikum urðu auðvitað miklar eignatilfærslur. Um áratugi voru láglaunafólk og lífeyrisþegar látnir bera kostnaðinn af verðbólgu en þeir sem högnuðust voru þeir sem voru í færum til að tryggja sér í gegnum pólitísk tengsl aðgang að lánsfé á neikvæðum vöxtum að vild. Það er auðvitað ljóst þegar horft er á þá sögu að í sumum tilvikum hafa orðið áþekk misgengisáhrif vegna hækkunar verðtryggðra lána og lækkandi fasteignaverðs og við höfum reynt hér á síðustu árum, til dæmis í krísunni eftir 1983. Það er því ekkert nýtt við það að misgengi verði né að það sé húsnæðiseigendum þungbært. Þá er spurningin: Er hægt að skapa fordæmi ef forsendubrestur er ekki hugtak sem dómstólar viðurkenna eins og staðan er í dag? Er þá verðbólguskot og bætur á verðbólguskoti möguleg forsenda til þess með réttlátum og sanngjörnum hætti á forsendum jafnræðis, — því að það er auðvitað lagt upp með það í þingsályktunartillögunni, meiri hluti nefndarinnar leggur líka á það áherslu í áliti sínu — er þá hægt að tryggja jafnræði á grundvelli hugmyndarinnar um að bæta verðbólguskot?

Ég mundi segja að ef ætlunin væri að bæta tjón vegna verðbólguskots sé ekki hægt að taka bara einn þjóðfélagshóp sem verður fyrir tjóni vegna verðbólguskotsins og bæta honum það en ekki öðrum. Það eru aðrir hópar en íbúðareigendur sem hafa orðið fyrir jafn miklu eða jafnvel verra tjóni. Besta dæmið er leigjendur sem hafa ekki notið hækkunar á fasteignaverði sem húsnæðiseigendur hafa þó notið og mildar höggið af verðbólguskotinu fyrir húsnæðiseigendur. Þegar við bætist að leigjendur hafa lakari aðgang að opinberri aðstoð til að niðurgreiða húsnæðiskostnað, vegna þess hversu húsaleigubætur hafa verið naumt skammtaðar til skamms tíma og þær hafa ekki tekið verðlagsbreytingum á kjörtímabilinu, blasir við að forsendubrestur leigjenda í verðtryggðri leigu er mun meiri en forsendubrestur eigenda sem eiga húsnæði. Þá eru ótaldir námsmenn þar sem lán hafa auðvitað ekki hækkað til að standa undir afborgunum af verðtryggðum lánum og auðvitað eru fleiri hópar, það nægir að nefna búseturéttarhafa, það nægir að nefna elli- og örorkulífeyrisþega sem hafa ekki notið verðtryggðra hækkana á lífeyri á undanförnum árum.

Allir þessir hópar hafa tapað á verðbólgunni og það er algjörlega órökstutt hvernig hægt er að segja að einn hópur í þjóðfélaginu eigi rétt á bótum fyrir verðbólguna en ekki annar og ef menn á annað borð ætla að bæta tjón af verðbólgunni er spurningin: Hvað með hagnað af verðbólgu? Er hann þá ekki skattlagður? Eru ekki lögð á gjöld til að taka hagnaðinn af þeim sem hafa fengið hann? Það eru fordæmi fyrir því. Á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar voru lagðir á dýrtíðarskattar á til dæmis leigusala sem högnuðust á dýrtíð, á ýmsa þjóðfélagshópa sem högnuðust. Við sjáum núna að auðvitað er áberandi að það var ekki þannig að allir töpuðu á verðbólgunni, það voru sumir sem högnuðust á henni. Það er auðvitað ljóst með fjármagnseigendur sem áttu verðtryggðar eignir en það er líka ljóst að útflutnings- og samkeppnisgreinar högnuðust verulega. Er þá ekki rétt að gera upptækan á móti verðbólguhagnað útflutningsgreinanna sem högnuðust á verðbólguskotinu ef það á annað borð á að bæta tjón sumra af verðbólgunni?

Þarna er engin samkvæmni hjá ríkisstjórninni. Þvert á móti kemur hún hingað inn, byrjar á skattbreytingum sem létta byrðum af samkeppnisgreinum og toppar það svo með sérstakri sendiför til þess að afsala þjóðinni eðlilegu afgjaldi af sameiginlegum auðlindum með veiðigjaldinu.

Í minnihlutaálitinu rek ég einstaka þætti í tillögunni og ætla ekki að orðlengja það en nefni sérstaklega 8. lið tillögunnar. Þar er lagt til að stofnaður verði sérfræðingahópur sem meti möguleika á að leggja gjald á fjármálafyrirtæki vegna umtalsverðra tafa á endurútreikningi lána. Slíkt er sjálfsagt og ég er mjög hrifinn af þessum lið. Ég vil minna á að í tíð fyrri ríkisstjórnar var mörkuð sú stefna að ekki ætti að leyfa arðgreiðslur úr bönkum og ekki ætti að lækka eiginfjárkröfur til þeirra nema þeir gætu sýnt umtalsverðan árangur í skuldaúrvinnslu. Með öðrum orðum héldum við þeirri svipu yfir fjármálakerfinu að það yrði að vinna úr því að lækka skuldastöðuna, koma vanskilalánum í skil og afskrifa eins og þeir þyrftu til þess að koma fólki og fyrirtækjum í eðlilegt horf áður en þeir gætu notið þess að eiginfjárkröfur lækkuðu og arðgreiðslur yrðu leyfðar á bönkunum.

Jafnframt voru fjármálafyrirtækin látin bera kostnað af starfsemi umboðsmanns skuldara og þar með enn frekar innsiglað og tryggt að þau hefðu hag af því að halda skuldaúrvinnslunni í góðum gangi. Stærsta vandamálið er sem fyrr Drómi sem lýtur ekki neinum venjulegum viðmiðum af því að hann er ekki starfsleyfisskylt fjármálafyrirtæki. Í 8. lið er gert ráð fyrir, eins og segir í tillögunni sjálfri, að sérfræðingahópur meti möguleika á því að leggja gjald á fjármálafyrirtæki vegna umtalsverðra tafa á endurútreikningi lána og komi með tillögur þar um í ágúst næstkomandi. Ég legg þunga áherslu á að sá hópur taki jafnframt á málefnum Dróma og komi með útfærðar tillögur um hvernig hægt sé að standa að upplausn þess fyrirtækis og flutningi á útlánum þess yfir til starfsleyfisskylds fyrirtækis, sem virðir eðlilegar samskiptareglur við viðskiptavini á fjármálamarkaði.

Við höfum margsinnis rætt þetta á síðasta kjörtímabili. Ég mælti fyrir frumvarpi árið 2011 sem varð að lögum, sem setti Dróma undir eftirlit Fjármálaeftirlits og fól Fjármálaeftirlitinu að ganga eftir því við þetta furðufyrirtæki að það færi að eðlilegum leikreglum á fjármálamarkaði því að það hefur enga framtíðarhagsmuni af viðskiptum við fólk og getur þess vegna komið fram við fólk eins og það kýs. Það er alveg ljóst að eftir að gengislánadómarnir hafa fallið er stór hópur lántakenda í þeirri stöðu að hann er með lán sem mundu teljast gild erlend lán ef ekki hefði komið til lagasetningar Alþingis í árslok 2010 sem ógilti öll gengistryggð íbúðalán. Það fólk á því bara stoð í lögunum sem hafa oft verið kennd við mig og voru sett hér í lok ársins 2010.

Íslandsbanki hefur kosið að ganga ekki að þessu fólki og virða þau lög, það er hrósvert. Það gerir Íslandsbanki vegna þess að hann er starfsleyfisskylt fjármálafyrirtæki og vegna þess að hann hefur framtíðarviðskiptahagsmuni í huga og hefur raunverulega langtímahagsmuni af því að koma fram við fólk með eðlilegum hætti. Drómi á hinn bóginn hefur enga slíka langtímahagsmuni, getur hegðað sér nákvæmlega eins og hann kýs og þess vegna er það fyrirtæki núna að brjóta sáttina um skynsamlegar leikreglur á fjármálamarkaði og ganga að um 160 heimilum með algjörlega óásættanlegum hætti. Ef það er ekki hægt á grundvelli lagabreytingarinnar sem við réðumst í 2011 og felldi Dróma undir eftirlit Fjármálaeftirlits, að stöðva þessa ósvinnu er orðið algjört grundvallaratriði að leysa upp þetta fyrirtæki og flytja lánin til starfsleyfisskylds fjármálafyrirtækis, sem er þá í þeirri stöðu að þurfa að taka tillit til hagsmuna viðskiptavina sinna og getur ekki gengið fram með algjörlega óábyrgum hætti.

Virðulegi forseti. Ég ítreka að lokum að mjög mikilvægt er að ríkissjóður verði ekki látinn bera byrðar til að fjármagna almennar aðgerðir vegna skuldavanda. Það er hið yfirlýsta markmið stjórnarflokkanna, að þessi kostnaður ætti ekki að koma úr ríkissjóði. Það er mjög mikilvægt að staðið verði við þau markmið þó að ríkisstjórnarflokkarnir séu svo sem ekki mikið í því núna að standa við fyrirheitin frá því fyrir kosningar nema að því leyti sem þau lutu að ívilnunum til stórútgerðar og annarra vildarvina.

Almennar tilfærslur á almannafé í þeim tilgangi að létta almennt skuldastöðu íbúðarkaupenda væri ósanngjörn aðgerð og mundu fela í sér stórfellda tilfærslu fjár frá þeim tekjuminni til þeirra sem eru betur settir, frá öldruðu og ungu fólki til fólks á besta aldri og frá landsbyggð til höfuðborgar. Þess vegna skiptir svo miklu máli að ríkissjóður verði ekki látinn bera byrðar vegna aðgerða af þessum toga. Eftir aðgerð eins og almenna skuldaniðurfellingu upp á 20% til dæmis væru tveir af hverjum þremur sem eru í vanda enn í vanda og ríkissjóður í engum færum til þess að mæta þeim vanda.

Mikilvægasta framlagið — eins og kemur fram í öllum umsögnum sem hafa borist nefndinni og er satt að segja leitun að jafn neikvæðum umsögnum um þingsályktunartillögu af þessum toga eins og raunin er í þessu máli — eins og kemur fram í öllum umsögnunum frá Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandinu, Seðlabankanum er auðvitað mikilvægasta framlag stjórnvalda og Alþingis til skuldsettra heimila, allra skuldsettra heimila og líka allra annarra landsmanna, að ríkissjóður beini öllu því svigrúmi sem ríkissjóður kann að hafa til að lækka skuldir ríkisins og greiða þannig fyrir lægri vöxtum, afnámi hafta, fjölgun starfa og almennri velsæld.

Ég vil að síðustu aftur minna sérstaklega á þá breytingartillögu sem ég flyt hér ásamt öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar og felur í sér að hverjum þingflokki verði heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa í nefndir og starfshópa sem skipaðir verði á grundvelli þingsályktunarinnar. Ég tel mjög mikilvægt að aðgangur allra flokka sé að þessu verki og ég vona að þingheimur taki þeirri hugmynd vel.