142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[13:55]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég held að sé gott að nota þetta tækifæri til að hjálpa hæstv. forsætisráðherra til að rifja upp orð sín um leigjendur. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að muna eftir þessu tilskrifi og sést nú að ég er ekki nægilega dyggur lesandi heimasíðu forsætisráðherra. Ég man hins vegar eftir því að í leiðtogaumræðum kvöldið fyrir kjördag vék hæstv. forsætisráðherra að því að bæta skyldi hag ekki bara húsnæðiskaupenda heldur líka leigjenda. Hæstv. forsætisráðherra veitir því beinlínis fyrirheit gagnvart leigjendum bæði í skrifum sínum á heimasíðuna og með ummælum sínum í leiðtogaþætti kvöldið fyrir kjördag. Þess þá heldur er sérkennilegur skortur á sérstakri umfjöllun um vanda leigjenda og úrlausn á stöðu þeirra í samhengi við aðra sem eiga húsnæði í þingsályktunartillögunni sjálfri af því forsætisráðherra var búinn að gefa alveg skýrt loforð að þessu leyti.

Svo má alveg spyrja líka: Er þá alveg fulltalið þegar horft er til íbúðareigenda og leigjenda? Ég tel að hagsmunir búseturéttarhafa séu þeir sömu þarna. Þá spyr maður auðvitað líka: Af hverju er það bara tjónið af verðbólgu, sem er til komið vegna húsnæðis, sem á að bæta ef hugmyndin um forsendubrest er yfir höfuð eitthvað annað en pólitískur merkimiði? Af hverju eiga þá ekki fleiri aðilar rétt á bótum sem orðið hafa fyrir tjóni?